Tekjulaus í ár vegna plássleysis

Agnes Grímsdóttir ásamt manni sínum Snæbirni Ragnarssyni og börnunum þeirra …
Agnes Grímsdóttir ásamt manni sínum Snæbirni Ragnarssyni og börnunum þeirra tveimur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ekkert fyrsta manneskjan sem lendir í þessu. Þetta er bara spurning um að brúa þetta bil sem myndast alltaf á milli fæðingarorlofs og leikskólapláss,“ segir Agnes Grímsdóttir.

Hún greindi frá óánægju sinni með dagforeldra- og leikskólamál í pistli á Facebook-síðu sinni.

Þar kom fram að hún er á biðlista eftir því að koma barninu sínu að hjá dagmömmu. Leikskóli stendur ekki til boða fyrr en barnið verður tveggja ára, sem verður haustið 2019.

„Núna stöndum við frammi fyrir því að klára orlofið mitt í júní og ég get ekki farið að vinna eða farið með barnið í leikskóla né til dagforeldra þá einfaldlega vegna þess að Björgvin kemst ekki inn í leikskólann fyrr en haustið 2019,“ skrifaði hún á Facebook-síðu sína.

„Ég verð þess vegna mjög líklega með níu mánaða gamalt barn og annað þriggja ára barn heima tekjulaus á meðan Bibbi vinnur myrkranna á milli til að eiga fyrir reikningunum bara vegna þess að barnið mitt fæddist í september en ekki í maí,“ skrifaði hún. 

Í samtali við mbl.is segir Agnes plássin í leikskólum yfirleitt fyllast á vorin. „Það er frekar súrt að fæða tveimur mánuðum of seint og fá ár í bakið.“

Kona á gangi með barnavagn.
Kona á gangi með barnavagn. mbl.is/Hari

Vill fá pláss í sínu bæjarfélagi

Hún segir stöðuna ekkert hafa breyst síðan hún eignaðist fyrra barnið sitt fyrir tveimur árum.„Þegar ég var með stelpuna litla lofaði Reykjavíkurborg öllum 18 mánaða börnum leikskólaplássi en það hefur ekkert gerst,“ segir hún og nefnir að aðeins tvær dagmömmur séu skráðar í bæjarfélagi sínu Seltjarnarnesi á vefsíðu bæjarins.

Agnes kveðst hafa tekið þá afstöðu að reyna ekki að leita að dagmömmu eða leikskólaplássi fyrir barnið sitt annars staðar en í bæjarfélagi sínu. „Ég veit ekki af hverju ég ætti að fara með barnið til dagmömmu upp í Breiðholt eða í Kópavog, eða færa lögheimilið mitt til þess að fá pláss annars staðar. Þetta eru tillögurnar sem fólk hefur komið með,“ greinir hún frá og segist hafa heyrt sögur af því að fólk færi lögheimili sitt til að fá pláss fyrir barnið sitt.

„Svakalegt“ tekjutap

Hún borgaði 70 þúsund krónur fyrir að hafa fyrra barnið sitt hjá dagmömmu fyrir tveimur árum og segir kostnaðinn vera álíka mikinn núna, eða frá 60 til 80 þúsund krónur.

„Þetta er bara ógeðslega dýrt. Maður þarf að velja hvort maður ætlar að láta sig hafa það að borga þennan 70 þúsund kall eða vera heima. Hvar er hagnaðurinn?“

Hún segir tekjutapið „svakalegt“ við að geta ekki farið út á vinnumarkaðinn í rúmt ár vegna þess að hún fær ekki pláss fyrir barnið sitt.

„Við erum ekkert efnað fólk. Við þurfum bæði að vinna til þess að lifa af. Þetta mun safnast upp í einhverja skuldahrúgu,“ segir Agnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert