„Góða fólkið er bókstaflega að ærast“

Páll Magnússon kemur kollega sínum í Suðurkjördæmi til varnar.
Páll Magnússon kemur kollega sínum í Suðurkjördæmi til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í færslu á facebooksíðu sinni að hann geti ekki orða bundist og kemur kollega sínum, Ásmundi Friðrikssyni, til varnar. Segist hann jafnframt ætla að taka Ásmund sér til fyrirmyndar.

„Góða fólkið er bókstaflega að ærast af vandlætingu yfir því hvað Ásmundur Friðriksson er duglegur að sinna sínu gríðarstóra kjördæmi, sem er 700 kílómetrar endanna á milli og ámóta víðfeðmt og Danmörk,“ skrifaði Páll á síðu sína í gærkvöldi.

Tilefni skrifanna eru fréttir af því að Ásmundur hafi fengið langmest þingmanna endurgreitt vegna aksturskostnaðar á síðasta ári, eða 4,6 milljónir króna. Ásmundur keyrði samtals tæplega 48 þúsund kílómetra í fyrra, en í samtali við mbl.is fyrr í vikunni sagði hann þetta fljótt að koma, enda hefði hann stóru kjördæmi að sinna. Þá keyrði hann 100 kílómetra í og úr vinnu á hverjum degi, sem væru um 2.000 kílómetrar á mánuði. Kjördæmavikur hefðu einnig sitt að segja og sagðist hann alltaf fara heim til sín á kvöldin þrátt fyrir að vera kominn langt að heiman því Alþingi greiddi ekki gistingu fyrir þingmenn í kjördæmum sínum.

Ásmundur sagðist jafnframt stoltur af því hvað hann keyrði mikið og sagðist ætla að halda þeirri iðju áfram. Þá benti hann áhugasömum á að þeir gætu fylgst með öllum ferðum hans á facebooksíðu hans þar sem hann gerði þeim góð skil, bæði vinnu- og skemmtiferðum.

„Einn annars ágætur félagi minn á þinginu gerði sig fallegan í framan í leiðinlegum sjónvarpsþætti í kvöld og sagðist aldrei myndu halda akstursdagbók eins og Ási. Það þurfti nú ekki mikið drenglyndi til að halda þessu fram því til þess hefði þessi þingmaður enga heimild; enda á hann ekki lengra að sækja en suður í Hafnarfjörð og upp í Kjós,“ skrifaði Páll einnig á Facebook og vísaði þar til ummæla Guðmundar Andra Thorssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem var gestur í þættinum Vikan með Gísla Marteini í gærkvöldi. Þar var akstur Ásmundar til umræðu og furðuðu menn sig á því hvernig hægt væri að aka svo mikið á einu ári. Guðmundur Andri sagðist ekki ætla að halda akstursdagbók yfir sinn akstur.

Páll sagðist ekki vita hvar hann væri sjálfur á listanum yfir endurgreiðslu vegna aksturskostnaðar, en hann óttaðist að hann væri ekki nógu ofarlega.

„Nú kann að vera að hægt sé að haga sumum ferðalögum þingmanna í stórum landsbyggðarkjördæmum með eitthvað ódýrari hætti en gert er, en síst af öllu ætti að letja þá til ferðanna og tengsla við fólkið. Nú hef ég ekki komist í að athuga hvar ég er sjálfur á þessum lista en óttast að ég sé ekki nógu ofarlega; að ég hafi ekki verið nógu duglegur við að fara um kjördæmið mitt. Ég ætla að bæta úr því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert