Þokkaleeega pepp í vel séð tjill

Orðfæri unglinga hefur breyst talsvert frá því þessi mynd var ...
Orðfæri unglinga hefur breyst talsvert frá því þessi mynd var tekin árið 1972 í grunnskóla í Reykjavík. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Munur á orðfæri mismunandi kynslóða er alltaf einhver, ekki síst þegar kemur að ýmiskonar tískuorðum, slangri og slettum. Sunnudagsblað Morgunblaðsins hitti fólk á öllum aldri og fékk innsýn í hvaða orð fylgja kynslóðunum, hvaða orð þykja úrelt og hvaða orð ákveðnir aldurshópar skilja jafnvel ekki.

Nálgast ritmál eins og skeytasendingar

„Mín kynslóð notar dálítið að eitthvað sé hax í merkingunni að eitthvað sé ósanngjarnt svindl. Ég held að það komi upphaflega úr tölvuleiknum Counter Strike og er ekki bara í neikvæðri merkingu. Maturinn getur til dæmis verið svo sjúklega góður að hann er hax, svindl góður.
Annað orðalag sem er mjög áberandi er að fólk segist ætla að detta eða hlaða í eitthvað eða henda í eitthvað. Eins og að detta í bíó í kvöld, henda í facebook-status. Í fyrradag var fyrirsögn á vefmiðli um íþróttamann sem „hlóð í þrennu“ en hann skoraði sem sagt þrennu,“ segir Einar Lövdahl Gunnlaugsson íslenskufræðingur er mikill áhugamaður um orðfæri og slangur en hann hefur skrifað BA-verkefni um blótsyrðið fokk og skyld orð í íslensku nútímamáli. 

„Þá er yngra fólki mjög tamt að nota sögnina að beila, þótt einhverjir myndu segja að þetta væri ekki íslensk sögn er hún mikill partur af talmáli yngra fólks í merkingunni að hætta við eitthvað og þar er meira að segja kynslóðamunur á notkun hennar út frá málfræði. Mín kynslóð myndi tala um að beila á einhverju meðan yngri kynslóð, krakkar undir tvítugu tala um að beila á eitthvað þar sem sögnin tekur með sér þolfall. Ég veit ekki hvernig það gerðist og hef þó meira að segja borið mig eftir að kanna það,“ segir Einar.

Einar Lövdahl Gunnlaugsson
Einar Lövdahl Gunnlaugsson Eggert Jóhannesson

Einar segir líka mun á ritmáli, það er að segja þegar sms og skilaboð á spjalli á netinu eru send.

„Mömmu og pabba kynslóð nálgast ritmál eins og skeytasendingar, hvert stafbil kosti aukalega. Maður hefur lent í því að vera í útlöndum og sendir kannski að maður sé kominn á leiðarenda eftir langt ferðalag, allt hafi gengið vel og hótelið sé æði og maður fær „Ok“ til baka. Þau meina það ekkert illa en yngri kynslóð myndi ekki leyfa sér það.“

Hugrún R. Hólmgeirsdóttir, Halldóra Björt Ewen, Þórhildur Magnúsdóttir og Unnar ...
Hugrún R. Hólmgeirsdóttir, Halldóra Björt Ewen, Þórhildur Magnúsdóttir og Unnar Ingi Sæmundundarson. Kristinn Magnússon

Þokkaleeeega bannað að svara með ok og punkti

Í Menntaskólanum við Hamrahlíð hitti blaðamaður íslenskukennarana Halldóru Björt Ewen og Hugrúnu R. Hólmgeirsdóttur og nemendur á lokaári, Þórhildi Magnúsdóttur og Unnar Inga Sæmundarson.
Halldóra og Hugrún, rámar ykkur í orð sem voru í tísku þegar þið voruð unglingar?
Hugrún: „Ýkt flott. Það var allt ýkt. Iiiiiii líka [innsk. blm: einkum þekkt í Hafnarfirði og gefur til kynna eitthvað sé rangt, asnalegt].“
Halldóra: „Þokkaleeeega. Það orð var mikið notað þar sem áherslan var öll á eee. Þegar kvikmyndin Veggfóður varð vinsæl 1992 heilsuðumst við vinahópurinn í lengri tíma: „Blessaður trommuheili.“ Reyndar heilsumst við vinkonurnar þannig ennþá tvær.“
Unnar: (klórar sér í hausnum): „Þokkalega með þessari áherslu er mjög furðulegt!“

Hvaða tískuorð er ykkar kynslóð að nota, Þórhildur og Unnar?
Þórhildur: „Geggjað og geðveikt er mjög mikið notað.“
Unnar: „Og pepp. Ég er mjög peppaður. Eruð þið pepp í þetta?“
Halldóra: „Ég hef á tilfinningunni að ykkur finnist mjög hallærislegt þegar ég nota það orð. Eru ekki allir pepp í bókunum? Þá sé ég svipinn á ykkur.“
Hugrún: „Svo er mjög merkilegt að unga kynslóðin heldur að sum gömul og góð orð séu nýtt slangur. Nemendur mínir nota mikið að eitthvað sé „illa séð“ eða „vel séð“. Svo þegar ég segi við nemendur mína; „Er það ekki bara vel séð?“ þá halda þau niðri í sér hlátrinum og finnst ég vera að reyna að vera unglingur! Nemandi sem var að skrifa ritgerð hjá mér um Njálu, spurði mig hvort það væri í lagi að nota svona „slangur“ eins og vel séð.“
Þórhildur: „Orð eru oft vinsæl hjá yngri kynslóðum í einhvern ákveðinn tíma en detta svo út. Fullorðna fólkið er þá hins vegar búið að læra þau og nota miklu lengur og mjög mikið. Dæmi um slík orð er fössari og fullorðnir hafa reynt að stytta alls konar orð í þessum sama dúr eftir að það varð vinsælt. Mamma sagði við mig um daginn; „Veistu að ég bjó til nýtt slangur um daginn, fossari yfir forseta. Ég sagði við pabba þinn, „Finnst þér ekki Fossarinn flottur?“ og hann skildi mig alveg.““
Það er hlegið á kostnað foreldranna.


Hvaða orðum hafið þið tekið eftir hjá yngri kynslóðum sem eru greinilega tískuorð, Halldóra og Hugrún?
Halldóra: „Franska orðið moi [mig, þf. af franska persónufornafninu ég]. Nema að þau skrifa það öll moj og bera fram moj en ekki múah eins og á að gera. Ég hló svo mikið að þessu, sagði við þau: „Þið vitið að þið eigið að segja múah en ekki moj, hvað er þetta eiginlega?“ Þetta orð heyrist um allt, þau tríta moj og mér fannst það svo hallærislegt að tönglast á þessu moj að ég fór að vinna markvisst í að reyna að breyta þessu, tók öfugu sálfræðina á þetta á Twitter og víðar og notaði óspart frasa eins og „trít á mojsun“ og lít raunar svo á að ég hafi náð að þagga aðeins niður þetta moj-rugl.
Ég finn líka kynslóðamun í skilningi sem ungt fólk leggur í skrifað mál í til dæmis tölvupóstum. Ef ég sendi þér tölvupóst og spyr þig; „Kemstu Júlía?“ Og þú svarar: „Ók, ég kem“ þá eru það bara eðlileg samskipti.
Ég fékk til mín unglingsstelpu sem var að senda skilaboð til sér svolítið eldri manneskju, spyrja hvort hún gæti fengið að tala við hana. Svarið sem hún fékk var „Ok.“ En af því að þarna í svar viðkomandi vantaði eitthvað meira, broskarla, eða lengra mál, þá túlkaði stelpan það svo að viðkomandi væri hreinlega eitthvað illa við sig. Ég skoðaði þessi samskipti með henni og það var ekkert óeðlilegt í þeim, viðkomandi var bara hress og til í að tala við hana.“
Þórhildur: „Já, við þekkjum þetta. Foreldrar svara bara „ok“ við einhverjum skrifuðum skilaboðum sem mín kynslóð hefði alltaf skrifað lengra svar við. Þetta er sérstaklega slæmt ef svarið er „ok.“ Með punkti. Þá er þessi aðili mjög pirraður út í þig. En ég er reyndar komin yfir það að taka svona svörum persónulega.“

Hvaða orð notar eldra fólk en þið, Þórhildur og Unnar, sem ykkur finnst hallærisleg eða bara notið ekki?
Unnar: „Töffari, pæja og skvísa. Mér finnast þau orð svolítið skrýtin og smá kjánaleg. Og líka orð á ensku eins og honey, eða baby, alveg hræðileg bara. Þegar mamma sagðist vera að hugsa sér gott til glóðarinnar hafði ég ekki hugmynd um hvað hún var að meina. Og frænka mín sem spurði mig að því, þegar ég var að fara til útlanda, hvort mig klæjaði í puttana að komast út. Ég bara, já, já, og mig klæjar í tærnar. Hafði ekki heyrt þetta áður. Minn aldur notar orðtök mjög lítið.“

Guðfinna Dóra Ólafsdóttir, Rúnar Einarsson, Ragnheiður Dóra Jónsdóttir og Hallveig ...
Guðfinna Dóra Ólafsdóttir, Rúnar Einarsson, Ragnheiður Dóra Jónsdóttir og Hallveig Rúnarsdóttir. Árni Sæberg

Hefurðu heyrt um grænar bólur?

Í Garðabæ hittir blaðamaður hjónin Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur, fyrrverandi tónmenntakennara og kórstjóra, og Rúnar Einarsson rafvirkja, dóttur þeirra Hallveigu óperusöngkonu og svo dóttur Hallveigar, Ragnheiði Dóru Jónsdóttur menntaskólanema. 

Hverju munið þið eftir þegar þið hugsið út í vinsæl tískuorð þegar þið voruð yngri?
Hallveig: „Mín kynslóð byrjaði með ógeðslega. Pabbi gerir enn grín að mér fyrir að nota það. Einnig þú veist. Glætan, spætan og feis var vinsælt.“
Rúnar: „Gæjar og pæjur eru orð sem komu inn þegar við vorum ung.“
Guðfinna: „Orð yfir stúlkur voru oft mjög ljót, það var talað um kvenmannsbelgi. “
Ragnheiður: „Mín kynslóð notar sum orð ekki í sömu merkingu og eldri kynslóðir. Það er til dæmis jákvætt að vera drusla í dag.“
Guðfinna: „Drusla getur aldrei orðið jákvætt. Drusla er tuska.“
Hallveig: „Foreldrar mínir voru ekki mjög ungir þegar þeir áttu mig, þannig að ég notaði oft dönsk orð frá þeim, sem enginn jafnaldri skildi. Um daginn bað ég manninn minn að setja bestik [hnífapör] á borðið. Hann vissi ekkert hvað ég var að tala um.“
Rúnar: „Einn félagi minn notaði alltaf orðið skaffigræjur yfir hnífapör.“
Guðfinna: „Tískuorð á okkur tíma voru ýmis dönsk orð eins og kújon, kjánaprik. En ég gleymi aldrei þegar ég var að kenna, og krakkar komu úr dönskuprófi og spurðu; Hvað þýðir eiginlega þetta fortó? Ég bara gapti, fyrir mér var fortó jafngilt og önnur íslensk orð.“
Rúnar: „Þegar ég var barn bjó ég á Hverfisgötu. Stundum þegar mamma var að bauka í kokkhúsinu við eldamaskínuna fór pabbi með okkur í spássitúr. Við fórum út um vaskahúsið og gengum framhjá offiserakampi við Hlemm. Pabbi brýndi fyrir okkur að ganga á fortóinu. Á sláturtíð gengum við niður að sjó og í fjörunni reageraði Logi svíðingur, hann sveið hausa og lappir fyrir sláturfélagið. Hann sat við fírverkeríið og hann gaf okkur sviðnar lappir í poka. Svo fórum við niður að höfn og komum heim með spyrðu. Það eru ýmis orð hér ég býst við að margt ungt fólk skilji ekki.“
Hallveig: „Örugglega komin 20 orð sem Ragnheiður skilur ekki.“
Ragnheiður: „Ég er aðallega að pæla, hvað þýðir eiginlega fortó?!“
Guðfinna: „Gangstétt! Við töluðum líka um að tjútta.“ (Nú flissar Ragnheiður, tjútta!).

En tískuorð þinnar kynslóðar, Ragnheiður?
Ragnheiður: „Pepp notum við mikið í merkingunni að vera spenntur fyrir einhverju. „Ég er svo pepp“ þýðir „ég er svo spennt“. Hellað er annað, þýðir að eitthvað sé æðislegt. Við segjum að eitthvað sé geðveikt beisik og svo erum við að tjilla, hanga og hafa það notalegt.“
Hallveig: „Myndir þú skilja ef ég segðist vera með grænar bólur fyrir einhverju?“
Ragnheiður: „Já, en bara vegna þess að ég lærði það í íslenskutíma. Nota það alls ekki.“

Tryggvi Gíslason.
Tryggvi Gíslason. Haraldur Jónasson/Hari

Akkúrat sympatískur

Tryggvi Gíslason, lengi skólameistari Menntaskólans á Akureyri, er af þeirri kynslóð sem man þegar danskan hafði sterk ítök í samskiptum fólks. Enda þótt Tryggvi sé þekktur sem mikill íslenskumaður og ætlaði sér meira að segja að verða doktor í málvísindum, þegar kall kom frá Akureyri um að sækja um starf skólameistara, gengst hann fúslega við því að dönsk orð slæðist oft inn í daglegt mál hans.
Nú hefur þú góða yfirsýn yfir orðfæri margra kynslóða. Finnst þér mikill munur á milli íslenskra kynslóða í máli?
„Ég held að það sé ekki svo mikill munur milli mín og barnanna minna heldur sé meiri munur í tungumáli milli barnanna minna og barnanna þeirra, barnabarnanna minna. Þetta er erfitt að sýna fram á með dæmum, en ég hef rætt þetta við börn mín sem hafa tekið undir þetta.
Einnig var munurinn á milli kynslóðar okkar Grétu [Margrétar Eggertsdóttur] eiginkonu minnar og foreldra okkar í orðfæri ekki svo mikill, að ég held. Ég held að kynslóðamunurinn birtist raunverulega fyrst fyrir 20 til 25 árum.“


Þegar þú varst að alast upp á Akureyri, hversu áberandi voru dönskuslettur í þínu málumhverfi?
„Þær voru mjög áberandi. Þegar ég kom til Akureyrar 7 ára gamall, fór ég niður á Ráðhústorg eins og það heitir á Akureyri, því að við Akureyringar eru stórlátir menn, eigum Ráðhústorg en ekkert Ráðhús. Þar kom til mín maður og sagði við mig: „Má bjóða þér bolsíur?“ Ég var nú ekki betri í dönsku en þetta að ég þorði ekki að segja já, því ég vissi ekki hvað hann var að bjóða mér. Bolsíur eru náttúrlega sælgæti, brjóstsykur, en á Akureyri keyptu menn ekki brjóstsykur heldur bolsíur. Akureyringar töluðu um altan (svalir), auðvitað með rödduðu l-i, bíslag (skúr), sultutau, margarín (smjörlíki), fortó (gangstétt) og mjög algengt var á Akureyri að menn notuðu drossíur um fólksbifreiðar.“


En þú sjálfur? Eru dönskuslettur í þínu máli sem kannski barnabörn tengja ekki við?
„Já, þau grínast með ýmsar dönskuslettur sem ég nota. Ég held að þau vandi sig líka sérstaklega þegar þau koma í heimsókn til okkar og reyni að tala gott mál en gera þess í stað gys að mér þegar ég segi „akkúrat“, sem ég nota mjög mikið. Þá er Grétu strítt á því, af börnum okkar og barnabörnum, þegar hún segir að einhver sé sympatískur.
Gamlir nemendur mínir hafa meira að segja skrifað mér eftir að ég fór að skrifa í Vikudag, blað okkar Akureyringa, um íslenskt mál og sproksetja mig fyrir dönskuslettur.“
Blaðamaður hváir. Sproksetja?
„Sproksetja. Já, það merkir að gera gys að eða gagnrýna. Mér er þetta orð tamt. Þá sendi gamall nemandi minn mér línu á dögunum og sagðist muna að ég hefði oft sagt „akkúrat“ í tímum þegar ég var að kenna. Og það var - náttúrlega - ekki nógu gott fyrir íslenskukennara að vera tekinn svona á beinið.“

Umfjöllunina má lesa í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Innlent »

Holuhraunsgos og Skaftáreldar af sömu rótinni

07:57 „Sterk rök eru fyrir því að Skaftáreldar, eitt allra stærsta eldgos Íslandssögunnar og orsök Móðuharðindanna 1783-84, hafi orðið samfara öskjusigi í Grímsvötnum inni í miðjum Vatnajökli,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Meira »

Vetraraðstæður í norðanátt

06:57 Vetraraðstæður eru á sumum fjallvegum norðaustan- og austanlands. Áfram fremur kalt í veðri á þessum slóðum fram eftir vikunni. Meira »

8 ára og brutu 17 rúður

06:17 Tveir átta ára drengir voru teknir af lögreglunni á Norðurlandi eystra á sjöunda tímanum í gær fyrir rúðubrot í vallarhúsinu á íþróttasvæði Þórs á Akureyri. Meira »

Ungmenni í haldi vegna líkamsárásar

06:11 Fimm ungmenni í annarlegu ástandi voru handtekin síðdegis í gær fyrir líkamsárás í Sólheimum. Þau eru öll í haldi lögreglu vegna rannsóknar á árásinni. Meira »

Sindri og félagar á samfélagsmiðlum

05:56 Hafþór Logi Hlynsson, sem hlotið hefur fjölda refsidóma fyrir fíkniefnabrot á síðustu árum, birti í gær mynd af sér á samfélagsmiðlum ásamt Sindra Þór Stefánssyni og Viktori Inga Sigurðssyni úti á götu í Amsterdam. Meira »

Ætla að byggja 10 þúsund nýjar íbúðir

05:30 Höfuðborgarlistinn ætlar á komandi kjörtímabili að standa fyrir byggingu 10.000 nýrra íbúða í Reykjavík, í efri byggðum borgarinnar. Íbúðirnar verða sérstaklega fyrir einstaklinga og ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign. Meira »

Undrast aðgerðir ljósmæðra

05:30 Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að aðgerðir ljósmæðra í heimaþjónustu hafi komið á óvart, en minnst 60 af 95 ljósmæðrum í heimaþjónustu leggja niður störf í dag vegna óánægju með kjaramál sín. Meira »

Helga hljóp í hlýjasta maraþoninu

05:30 Helga Erlingsdóttir hlaupakona var meðal rúmlega 40 þúsund hlaupara sem tóku þátt í Lundúnamaraþoninu í gær. Afar heitt var í London í gær, hitinn mældist 24,1 stig og hefur maraþonið aldrei verið hlaupið í jafnmiklum hita. Meira »

Facebook er mikilvægt í kosningunum

05:30 Sá fjöldi framboða sem nú er kominn fram fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í næsta mánuði leiðir til þess að athygli fjölmiðla dreifist. Meira »

Slíta viðræðum um sölu skólaþorps

05:30 Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur slitið viðræðum um sölu húseigna og jarða sinna á Laugum í Sælingsdal. Kaupandinn gat ekki fjármagnað umsamið kaupverð með þeim hætti sem sveitarstjórn gat sætt sig við. Meira »

Sérframboð er í undirbúningi

05:30 Sérframboð er í undirbúningi á Seltjarnarnesi, en að því stendur m.a. fólk sem lengi hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum eða tekið þátt í starfi hans í bæjarfélaginu. Meira »

Geðfatlaður og býr í bíl

05:30 „Með því að segja frá aðstæðum Steindórs í opnu bréfi vonar fjölskyldan að hver sá sem les þetta geti á einhvern hátt aðstoðað fjölskylduna við að koma Steindóri í öruggt viðeigandi frambúðarhúsnæði.“ Meira »

Guðrún Helga á meðal verðlaunahafa

Í gær, 22:50 Sögur, verðlaunahátíð barnanna, var haldin í Hörpu í kvöld við góðar undirtektir. Bækunar Amma best og Kiddi klaufu hlutu Bókaverðlaun barnanna 2018, Guðrún Helgadóttir hlaut Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY á Íslandi og Blái hnötturinn var valin besta leiksýningin. Meira »

Mörg hundruð manns plokkuðu

Í gær, 21:43 Mörg hundruð manns plokkuðu á Íslandi í dag, í tilefni af Degi jarðar, en í plokki felst að skokka og á sama tíma tína upp rusl á víðavangi. Facebook-hópurinn „Plokk á Íslandi“ stóð fyrir hreinsunarátakinu og í tilkynningu frá hópnum segir að átakið hafi gengið gríðarlega vel. Meira »

Flutti ís til Íslands

Í gær, 20:30 „Hnattræn hlýnun er mikið og flókið vandamál, með mjög einfalda lausn.“ Á þessum orðum hefst myndband sem bandaríska sjónvarpsstöðin Comedy Central gaf út í dag, á Jarðardeginum, en Ísland er þar í aðalhlutverki ásamt grínistanum Moses Storm. Meira »

Sindri Þór handtekinn í Amsterdam

Í gær, 22:08 Strokufanginn Sindri Þór Stefánsson var handtekinn í miðborg Amsterdam í Hollandi í dag. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum við mbl.is. Meira »

Mun krefjast skaðabóta

Í gær, 20:57 Lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson mun krefjast þess að umbjóðandi hans fái skaðabætur verði hann sakfelldur í máli í Landsrétti. Meira »

Ekki gaman að vera strá í þjóðgarðinum

Í gær, 18:32 „Við getum sagt að það sé ekki gaman að vera strá í Vatnajökulsþjóðgarði,“ segir Snorri Baldursson, sem ritstýrði tilnefningu þjóðgarðsins á heimsminjaskrá UNESCO. „Það getur átt von á jökulhlaupi, öskugosi, því að skriðjökull eða hraun valti yfir það.“ Meira »
Ódýr Nýr Ferðanuddbekkur nokkur stk 46.000 www.egat.is
- Hægt að hækka og lækka bak eins og hentar - Ferðataska fylgir - þyngd 18.5 k...
Tölvuþjónusta
Alhliða tölvuviðgerð, vírushreinsun, vírusvarnir, gagnabjörgun og verðtilboð. F...
Sumarhús í Hvalfirði 55 km frá Reykjavík
Til leigu vel útbúin 2-4 manna sumarhús með heitum potti og gasgrilli. Frábært ú...
 
Félagsstarf
Staður og stund
Aflagrandi 40 opin vinnustofa kl. 9 og f...
Tillaga að deiliskipulagi
Tilboð - útboð
Tillaga að nýju deiliskipulagi í...
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristni- boðssalnum. R...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur Eflingar - stéttar...