Fá hjálp til að koma fólki til Reykjavíkur

Björgunarsveitarmenn þurftu að aðstoða tæplega 30 bíla á Akureyri í …
Björgunarsveitarmenn þurftu að aðstoða tæplega 30 bíla á Akureyri í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg

109 björgunarsveitarmenn í 30 hópum voru að störfum víða um land í nótt. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir síðustu björgunarsveitarbíla í uppsveitum Árnessýslu hafa verið að koma niður um tvöleytið í nótt og um svipað leyti hafi verið að ljúka við að flytja ferðamenn sem urðu strandaglópar í fjöldahjálparmiðstöðina á Selfossi. Fjöldahjálparmiðstöð hafði einnig verið opnuð í félagsmiðstöðinni í Aratungu og voru ferðamenn fluttir þangað og niður á Selfoss.

Lögregla á Selfossi hélt stöðufund með Vegagerðinni og Rauða krossinum nú í morgun og búið er óska eftir aðstoð tveggja björgunarsveita á svæðinu til að koma þeim sem urðu strandaglópar vegna veðurs frá Selfossi til Reykjavíkur.

Búið að hleypa næstum öllu lofti úr dekkjum

„Fljótlega upp úr miðnætti fóru síðan að berast tilkynningar um bíla sem sátu fastir víða á Norðvesturlandi og Vestfjörðum,“ segir Davíð Már. Einn bíll var fastur uppi á Holtavörðuheiði og ófærðin var svo mikið að það gekk erfiðlega að komast að honum, en fimm manns voru í bílnum sem þurfti að flytja í burtu. „Það var búið að hleypa næstum öllu lofti úr dekkjum á björgunarsveitarbílnum til að komast þangað,“ segir hann.

Björgunarsveitarmenn að störfum. Lögregla á Akureyri hefur hvatt menn til …
Björgunarsveitarmenn að störfum. Lögregla á Akureyri hefur hvatt menn til að halda sig heima því götur séu enn víða ófærar. Ljósmynd/Landsbjörg

Síðla nætur voru björgunarsveitarmenn á tveimur stöðum á landinu síðan að aðstoða fólk við að komast heim af þorrablótum.

Hvattir til að halda sig heima

Þá þurfti björgunarsveitir að aðstoða ökumenn hátt í 30 bíla á Akureyri á fjórða tímanum í nótt. Segir Davíð Már bíla út um allan bæ hafa verið í vandræðum. Hefur lögreglan á Akureyrir raunar hvatt menn til að halda sig heima séu þeir ekki á þeim mun betur útbúnum bílum, því enn sé víða ófært í bænum.

„Morguninn fer síðan þannig af stað að björgunarsveitir á Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjanesbæ hafa verið að aðstoða heilbrigðisstarfsfólk við að komast til og frá vinnu og við að sinna heimahjúkrun,“ segir Davíð Már og kveður björgunarsveitir vera tilbúna fyrir næsta skell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert