Málið stærra en núverandi ráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ferlið við skipan dómara vera …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ferlið við skipan dómara vera meingallað. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hyggst einbeita sér að utanríkismálum og stefnir ekki á formennsku innan Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi, þá hafi hann ekki hug á að sækjast eftir varaformannsembættinu þá heldur. „Það er mín sýn á varaformannsembætti að það þurfi að vera í forgangi og það sé krefjandi þegar maður þarf að vera jafnmikið fjarverandi,“ sagði Guðlaugur Þór í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Staða dómsmálaráðherra og skipan dómara var einnig til umræðu og sagði Guðlaugur Þór ferlið við skipan dómara vera meingallað. „Ég er að vonast um það [til þess] að umræðan fari að komast úr því að ræða persónur,“ sagði hann og kvaðst þeirrar skoðunar að Sigríður Andersen hafi staðið sig prýðilega sem dómsmálaráðherra.

Ekkert hafi komið fram í máli Sigríðar varðandi skipan dómara í Landsrétt sem sé ámælisvert gagnvart henni að mati Guðlaugs Þórs, sem kveður dómsmálaráðherra hafa verið duglegan að koma fram. „Hún hefur farið í alla fyrirspurnatíma og hefur sjálf haft frumkvæði að því að allir fundir með henni hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd séu opnir í beinni útsendingu, sem mér finnst alveg til fyrirmyndar.“

Varðar lögmæti dómstólsins sjálfs

„Málið er stærra en núverandi dómsmálaráðherra,“ sagði Guðlaugur Þór. „Málið snýr að því hvernig við skipum dómara og það er stórmál.“ Það varði lögmæti dómstólsins sjálfs.

„Það er ekki gott þegar umræða er með þessum hætti,“ bætti hann við. Þeir sem skoða ferlið og lagaumhverfið komist að því að þar þurfi að gera breytingar. „Þannig að við þurfum ekki að vera að deila um það í hvert skipti,“ sagði Guðlaugur Þór og kvað kurr í mörgum þótt ekki komi það allt fram í fjölmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert