Búið að opna Hellisheiði og Þrengsli

Enn er lokað fyrir umferð um Mosfellsheiði.
Enn er lokað fyrir umferð um Mosfellsheiði. mbl.is/​Hari

Búið er að opna á umferð um Hellisheiði og Þrengsli, vegirnir voru opnaðir á sjöunda tímanum í morgun eftir að hafa verið lokaðir frá því í gærdag. Enn en hins vegar lokað um Mosfellsheiði, Kjósarskarð og Lyngdalsheiði samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.

Þá er búið að opna Reykjanesbrautina, en RÚV greinir frá því að hún hafi verið lokuð um tíma í nótt á meðan éljabakki gekk þar yfir.

Beið fjöldi bíla beggja vegna lokunarpósta eftir að komast leiðar sinnar og eru sumir ökumannanna sagðir hafa verið orðnir nokkuð nokkuð óþreyjufullir að komast til Leifsstöðvar í flug. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum safnaðist mikill farþegafjöldi í Leifsstöð á meðan Reykjanesbrautin var lokuð.

Þá er búið að opna Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg.

Hringvegurinn milli Hvolsvallar og Víkur er hins vegar lokaður og Biskupstungnabraut ofan Laugarvatnsafleggjara, en búið er að opna frá Laugarvatni niður að Selfossi. Þá er vegurinn frá Heydalsafleggjara að Vegamótum á sunnanverðu Snæfellsnesi lokaður og eins eru Fróðárheiði, Brattabrekka og Holtavörðuheiði ófærar og lokaðar. Þá er Súðavíkurhlíð lokuð vegna snjóflóðahættu. 

Auk þessara lokana er víða ófært eða ekki ferðaveður, en mokstur stendur nú yfir á öllu landinu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert