Eldur í snekkju við Sjóminjasafnið

Tilkynning barst um eld í snekkju við bátabryggjuna hjá Sjóminjasafninu um hálfellefuleytið í morgun. Slökkvilið var svo varla komið á staðinn þegar útkall barst um eld í íbúð við Ránargötu.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu hafði kraumað einhver eldur í snekkjunni um tíma í morgun. Stór snekkja lá við hlið þeirra sem eldurinn var í og hefði orðið mikið tjón ef eldurinn hefði náð að breiða úr sér. Búið er að slökkva eldinn, ekki liggur enn fyrir hve mikið tjónið er.

Er tilkynningin barst um eld á Ránargötu nokkrum mínútum eftir að slökkviliðið kom á vettvang var öðrum bílnum snúið við. Þar reyndist vera pappír á eldavél og hefðu að sögn slökkviliðsins ekki  liðið margar mínútur þar til þar hefði orði mikill eldur. Slökkviliðsmenn náðu hins vegar að slökkva eldinn snarlega og reykræsta íbúðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert