Enginn rekinn eða færður til í starfi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. Karl …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. Karl tekur við sem yfirmaður kynferðisbrotadeildar 1. apríl. mbl.is/Eggert

Enginn starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður látinn sæta ábyrgð í kjölfarið á því að það dróst að hefja rannsókn á meintum kynferðisbrotum karlmanns sem starfaði hjá Barnavernd Reykjavíkur. Þess í stað verður kynferðisafbrotadeild lögreglunnar styrkt um sex stöðugildi. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar síðdegis.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri sagði að mistök lögreglu hefðu orðið þess valdandi að upplýsingar um að maðurinn starfaði með börnum voru ekki sendar barnaverndaryfirvöldum fyrr en í janúar. Kæra vegna mannsins barst lögreglu í ágúst í fyrra.

Frétt mbl.is: Gera þarf breytingar á lögreglukerfinu

Aðspurð sagði Sigríður að lögreglan væri að athuga, ekki rannsaka, eigin starfsemi og væri ekki í hlutverki utanaðkomandi matsaðila. „Við skoðum forgangsröðun mála,“ sagði Sigríður.

Karl Steinar verður yfirmaður deildarinnar

Hún sagði að deildin yrði styrkt, verklag yrði sameiginlegt á landsvísu og skipulag yrði bætt. „Við höfum gert ýmislegt en það má gera betur.“ Stefnt er að því að hefja fjölgun starfsmanna deildarinnar 1. apríl. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn mun gegna starfi yfirmanns kynferðisabrotadeildar lögreglunnar og mun hann hefja störf 1. apríl. 

Sigríður sagði mistök lögreglu ekki liggja í því að rannsókn málsins hafi hafist of seint heldur að barnaverndaryfirvöldum hafi ekki verið tilkynnt þegar hún hófst. „Í þessu tilfelli fór þetta ekki rétt af stað,“ sagði Sigríður. Venjulega fái lögregla mál send frá barnavernd.

Frétt mbl.is: Mistök voru gerð í upphafi

„Það er eins og það sé gengið út frá því að barnavernd viti af þessu,“ sagði Sigríður og bætti við að lögregla þyrfti að ræða þessi mál við barnavernd.

Sigríður var ítrekað spurð hvort enginn yrði færður til eða látinn fara vegna málsins. „Við höfum ekki séð neitt saknæmt í þessu máli, ekki neitt,“ sagði lögreglustjórinn og bætti við að deildin yrði styrkt um sex stöður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert