Hengdi út þvott í axlardjúpum snjó

Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir

„Ég ætlaði að sýna manninum mínum, sem er staddur fyrir sunnan, hversu mikið hefði snjóað um nóttina og þess vegna setti ég fyrst inn myndina af snúrunni. Síðan spurði einhver hversu há snúran væri og þá hugsaði ég með mér að það væri kannski rétt að setja eitthvað inn á myndina sem viðmið. Mér fannst það síðan bara mjög fyndið að hengja upp þvott í þessum aðstæðum. Þannig að ég ákvað bara að slá þessu upp í grín.“

Þetta segir Rebekka Guðleifsdóttir ljósmyndari á Ísafirði um myndina hér fyrir ofan þar sem hún sést hengja upp þvott í garðinum heima hjá sér í nær axlardjúpum snjó. Myndin hér að neðan sýnir fyrri myndina sem hún tók. Rebekka bjó áður í Hafnarfirðinum en ólst upp í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. Þessar aðstæður eru henni því mjög framandi. Hún segir að móðir hennar sé hins vegar frá Húsavík og hafi sagt henni sögur af svona þaðan.

Vinsældir myndarinnar komu á óvart

„Ég hafði fyrir því að moka slóða að snúrunum í sveig þannig að hann sæist ekki. Það var talsvert puð,“ segir Rebekka og hlær. „Þannig að þetta kom svolítið skemmtilega út. En ég átti ekki von á að þetta færi svona út um allt. Þetta er það sem hefur verið langmest deilt af því sem ég hef gert og hef ég þó verið að setja myndir eftir mig á netið í tíu ár. Svo er fyndið að margir halda greinilega að ég hafi raunverulega verið að taka inn þvottinn.“

Rebekka segir að áður en hún flutti á Ísafjörð hafi hún heyrt að svona gætu veturnir á Ísafirði verið. Sú hafi hins vegar ekki verið í fyrra. „Þetta er alveg miklu, miklu, miklu meira af snjó. Nú finnur maður líka fyrir þessari innilokunarkennd sem maður var varaður við. Fjöll auðvitað á alla kanta, svo kemur mikill snjór og Súðavíkurhlíðin lokast. Það hafa komið þrjár svakalegar tarnir en þetta er alveg það langmesta sem hefur komið hingað til.“

„Ég var svolítið að velta því fyrir mér á meðan ég var að moka slóðann hvort nágrannar mínir væru kannski að hugsa hvað væri að mér. Því ég var ógeðslega lengi að loka einhvern tilgangslausan slóða,“ segir Rebekka og hlær. „En ég hef svo sem alveg verið þekkt fyrir að gera eitthvað svona áður. Ég hef mikið verið að taka sjálfsmyndir og oft einmitt berfætt eða léttklædd í snjó eða vaðandi úti í vötn en það hefur aldrei farið svona út um allt.“

Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert