Öflugir jeppar til mestra vandræða

Björgunarsveitarmenn að störfum við lokun Vesturlandsvegar um helgina.
Björgunarsveitarmenn að störfum við lokun Vesturlandsvegar um helgina. mbl.is/Hari

„Ef Íslendingar geta ekki móttekið þau skilaboð að heiðar séu ófærar og lokaðar hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að allir ferðamenn sem hingað koma geri það?“ segir Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðastjóri hjá Landsbjörg, spurður hvort upplýsingar um veður og færð skili sér til erlendra ferðamanna.

Um 300 björgunarsveitarmenn voru að störfum um helgina við að aðstoða fólk sem hafði fest bíla sína í óveðrinu sem gekk yfir landið. Hann segir að í hópnum sem hafi þurft að koma til bjargar hafi verið heimamenn og ferðamenn nokkuð til jafns. Munurinn felist hins vegar í því að flestir ferðamenn eru á minni bílum. 

„En það sem við höfum átt í mestum vandræðum með undanfarið eru Íslendingar á öflugum jeppum,“ segir Guðbrandur. Björgunarsveitarmenn sjá um að standa vörð við vegatálma þegar Vegagerðin ákveður að loka vegum vegna veðurs og eiga því í samskiptum við ökumenn. 

Dæmi eru um að íslenskir jeppamenn séu afar ósáttir við að fá ekki að fara um vegina þegar þeim hefur verið lokað. Guðbrandur segir að vissulega gætu sumir þeirra komist í gegnum snjóinn en málið snúist ekki um það. 

„Það er auðvelt að komast yfir heiðar á mjög öflugum jeppum en þær aðstæður koma upp að þar sem er verið að hreinsa vegi þarf öryggis vegna að stoppa alfarið umferð. Það er það sem menn eiga sumir hverjir erfitt með að skilja.“ Þannig að þó að öflugur jeppi sé á ferð geti hann hægt á snjóruðningstækjum sem eru að störfum.

Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðastjóri Landsbjargar.
Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðastjóri Landsbjargar. Ljósmynd/Landsbjörg

Þá getur lífi björgunarsveitarmanna einnig verið stefnt í hættu er bílar fara fram hjá lokunum. „Oft erum við í verkefnum á heiðavegum þegar þeir eru lokaðir og leggjum þá bílum okkar þversum með blikkandi blá ljós. Þannig að þetta snýst mjög mikið um okkar öryggi. Það er ábyrgðarleysi að fara fram hjá þessum lokunum.“

Eins og skyggnið var um helgina hefði hætta geta skapast af þessum sökum. Í lok síðasta árs hafi t.d. rúta ekið á snjóruðningstæki í blindbyl. „Það sem veldur mestri hættu eru Íslendingar á öflugum fjallajeppum sem eru að koma í flasið á okkur uppi á heiðum.“

Ferðamenn aðeins hluti af vandanum

Guðbrandur segist því ekki líta á erlenda ferðamenn sem stórt vandamál í þessu samhengi. Vissulega hafi þeim fjölgað og verkefnum þeim tengdum, sérstaklega þeim sem eru á vanbúnum bílaleigubílum hafi fjölgað samhliða. Það er hins vegar aðeins hluti af vandanum. Hann segir að á síðunni safetravel.is geti ferðamenn nálgast upplýsingar um færð og veður og séu almennt duglegir við að afla sér þeirra, þó að vissulega megi alltaf gera betur. „Við náum vel til ferðamanna. Og mín reynsla er sú að ferðamenn hlýða lokunum. Ég get alveg skilið sjónarmið þeirra sem eru á stórum jeppum en þetta snýst um hagsmuni heildarinnar ekki að einhverjir fáir komist leiðar sinnar.“

Vegagerðin tekur ákvarðanir um lokanir en björgunarsveitarmenn Landsbjargar sjá um að framfylgja þeim. Hann segir starfsmenn Landsbjargar enga heimild hafa til þess að hleypa sumum í gegn en öðrum ekki. „Og við viljum frekar sinna lokunum á lágmarksmannskap heldur en að vera með mörg hundruð manns í verkefnum [vegna fastra bíla]. Tíma sjálfboðaliðans er illa varið ef hann þarf að fara á eftir einhverjum sem kann ekki að taka tillit til annarra.“

Guðbrandur segir að upplýsingagjöf til ferðamanna sé í góðum farvegi og bendir á að Landsbjörg hafi haft frumkvæði í því að efla hana. Þegar veður séu válynd séu upplýsingar sendar á yfir 3.000 aðila í ferðaþjónustu. „Þeir eru að svara því vel og koma þeim skilaboðum áleiðis til sinna kúnna. Ferðamenn eiga því ekki að vera verr upplýstir en einhverjir aðrir.“

mbl.is