Ryðja snjóflóð í „guðsbarnaveðri“

Talsverður snjór er á Ísafirði.
Talsverður snjór er á Ísafirði. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Rúmlega 30 snjóflóð féllu á norðanverðum Vestfjörðum í óveðrinu um helgina. Tvö snjóflóð féllu á Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, 27 til 28 í Súðarvíkurhlíðinni og þrjú snjóflóð féllu á Hnífsdalsveg svo dæmi séu tekin. 

Þegar starfsmenn Vegagerðarinnar hófu að ryðja vegi í morgun komu snjóflóðin í ljós. Um 10 snjóruðningstæki hafa verið að störfum frá því klukkan hálfsex í morgun að ryðja snjó og verða fram á kvöld.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst á norðanverðum Vestfjörðum um helgina en var aflétt í morgun. Lítil hætta er talin á náttúrulegum snjóflóðum eins og er, en gera þarf ráð fyrir því að snjór til fjalla sé enn óstöðugur eftir veðrið og að fólk geti komið af stað stórum flóðum ef ferðast er um brattar brekkur eða nálægt þeim. 

Vegir eru orðnir færir en unnið er að því að breikka þá, að sögn Guðmundar Björgvinssonar yfirverkstjóra Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. „Það er verið að vinna á fullu í blíðunni og sólskininu. Það verður stundum guðsbarnaveður eftir hríðarbil,“ segir Guðmundur hress í bragði. 

Þrátt fyrir að snjóflóðin hafi verið um 30 talsins er það hvorki met í fjölda né magni, að sögn Guðmundar. Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að mesta þykkt flóðtungu á vegi var um 3,5 metrar hins vegar er ekki auðvelt að aðgreina flóðin í öllum tilvikum þar sem tungurnar eru mikið samvaxnar. 

Ekki er talið að tjón hafi orðið vegna flóðanna því þau féllu fjarri mannabyggðum. Guðmundur segir fínt að veðurhamurinn hafi skollið á yfir helgi því þá hafi fólk getað hvílt sig heima og komið ferskt til vinnu að ryðja snjó á mánudagsmorgni. 

Snjóflóð féllu úr Hrafnagili, Steiniðjugili, Grænagarðsgili og Karlsárgili í Seljalandshlíð á Ísafirði. Eitt þeirra náði inn á veg upp á gönguskíðasvæði Ísfirðinga.

Snjóalögin í nýja snjónum eru óstöðug sem þekja fjalllendi á Vestfjörðum og er rétt að ferðalangar sýni ýtrustu aðgæslu ef farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Þetta kemur einnig fram á vefsíðu Veðurstofunnar. 

Starfsmenn Vegagerðarinnar á Vestfjörðum ryðja snjó af vegunum.
Starfsmenn Vegagerðarinnar á Vestfjörðum ryðja snjó af vegunum. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert