Skoða aukna aðkomu gæslunnar að sjúkraflugi

Starfshópurinn mun skila niðurstöðum í næsta mánuði, en skoða á …
Starfshópurinn mun skila niðurstöðum í næsta mánuði, en skoða á aukna aðkomu gæslunnar að sjúkraflugi. mbl.is/Árni Sæberg

Skipaður hefur verið starfshópur til að meta hvort ávinningur sé af því að auka aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi. Á hópurinn að skila niðurstöðum sínum eftir einn mánuð. Hópurinn var skipaður af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að hópurinn eigi að meta mögulegan ávinning, bæði faglegan og fjárhagslegan, af aukinni aðkomu gæslunnar að sjúkraflugi, hvort heldur sé með þyrlum eða öðrum flugvélum. Þá á hópurinn einnig að meta aðra mögulega kosti þyrlusjúkraflugs, meðal annars með hliðsjón af tillögum sem kynntar voru í skýrslu fagráðs um sjúkraflutninga sem kynnt var á síðasta ári. Í þeirri skýrslu fjallaði fagráðið um notkun á þyrlum hér á landi til að sinna flutningi á bráðveikum og slösuðum sjúklingum.

Formaður starfshópsins er Elsa B. Friðfinnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Ólafur Gunnarsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, Sigurður Einar Sigurðsson, fulltrúi Sjúkratrygginga Íslands, Inga Þórey Óskarsdóttir, fulltrúi dómsmálaráðuneytisins, Sandra M. Sigurjónsdóttir, fulltrúi Landhelgisgæslu Íslands og Viðar Magnússon fulltrúi Fagráðs sjúkraflutninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert