Atburðarásin í stuðningsfulltrúamálinu

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn á …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundinum í gær. mbl.is/Eggert

Í lok janúar var greint frá því í fjölmiðlum að stuðningsfulltrúi sem starfaði á heimili Barnaverndar Reykjavíkur hefði verið handtekinn grunaður um gróf kynferðisbrot gegn dreng þegar hann var 8 til 14 ára gamall. Maðurinn er á fimmtugsaldri og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. janúar þegar hann var handtekinn.

Fljótlega kom í ljós að mikil töf hafði orðið á málinu í meðförum lögreglunnar og hóf lögreglan, undir forystu Karls Steinars Valssonar yfirlögregluþjóns, innri skoðun á ferli og rannsókn málsins. Var niðurstaðan kynnt á blaðamannafundi í gær og skýrslan jafnframt birt.

Í skýrslunni er verklag lögreglunnar gagnrýnt, meðal annars að við frumgreiningu hafi ekki verið athugað strax með starfsvettvang mannsins í ljósi þeirra ásakana sem komi fram í kærunni. Er aðkoma stjórnenda sögð hafa verið ómarkviss, verkskipting óljós og aðhald um framvindu málsins ekki viðunandi.

Tímalína málsins, af hálfu lögreglunnar, er sett fram í skýrslunni, en hér að neðan má finna þá tímalínu auk þeirra upplýsinga sem hafa komið fram í fjölmiðlum undanfarið.

2002: Haft var eftir lögmanni drengsins í fréttum RÚV að hann viti til þess að Barnavernd Reykjavíkur hafi fyrst verið tilkynnt um möguleg brot mannsins á þessu tímabili. Barnavernd kannast hins vegar ekki við tilkynninguna og ekki hafa komið fram frekari staðfestingar á slíkri tilkynningu. 

2004-2010: Meint brot gegn drengnum eiga sér stað. Drengurinn dvaldi reglulega á heimili á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík sem maðurinn hafði umsjón með. Að jafnaði dvöldu þar nokk­ur börn í senn en maður­inn hafði bú­setu á heim­il­inu. Tvö systkini drengs­ins dvöldu einnig um tíma á heim­il­inu og er hann tal­inn hafa brotið gegn þeim líka. 

2008: Samkvæmt heimildum mbl.is var maðurinn tilkynntur til Barnaverndar Reykjavíkur og Félagsþjónustunnar. Ekkert er til á skrá hjá Barnavernd um málið, en komið hefur fram að bæði Barnavernd og velferðarsvið borgarinnar telji um mistök sín megin að ræða og véfengja ekki að tilkynning hafi borist.

Brot mannsins eru sögð ná yfir 6 ára tímabil þegar …
Brot mannsins eru sögð ná yfir 6 ára tímabil þegar drengurinn var 8-14 ára gamall. mbl.is/Hari

2013: Kæra barst lögreglunni vegna mannsins fyr­ir kyn­ferðis­lega áreitni gagn­vart barni. Kærð brot áttu sér stað upp úr alda­mót­um, á ár­un­um 2000 til 2006, var málið því talið fyrnt þegar kær­an barst og fellt niður. Lögreglan staðfestir að hafa fengið þessa kæru, en Barnavernd var ekki gerð grein fyrir henni.

2015: Drengurinn ætlaði að kæra manninn, en þá var hann orðinn 19 ára. Fór hann ásamt móður sinni niður að lögreglustöð en hætti við og vildi vinna betur í sjálfum sér. Móðirin fór hins vegar inn á lögreglustöðina og ræddi við lögreglumennina. Segist hafa gefið upp nafn mannsins og sagt að hann starfaði með börnum. 

Sumar 2017: Drengurinn leitar til lögmanns vegna málsins.

24. ágúst 2017: Lögmaður drengsins leggur fram kæru í málinu. Tekið er fram í kærunni að kæranda sé kunnugt um að maðurinn hafi starfað fyrir barnaverndaryfirvöld og meðal annars rekið heimili fyrir börn. Málið er skráð í LÖKE-kerfi lögreglunnar og skráð á kynferðisbrotadeildina. Málið skráist sjálfkrafa á yfirmann deildarinnar, en lögreglufulltrúi skráir það stuttu síðar á sig. Maðurinn sem er kærður starfar á þessum tíma á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti og starfar þar áfram í tæplega fimm mánuði þangað til hann er handtekinn.

7. september 2017: Málið skráð í ferilinn „Í rannsókn“ og á tiltekinn rannsóknarlögreglumann. Samhliða því þarf að skrá löglærðan fulltrúa á ákærusviði með málið sem var og gert. Löglærði fulltrúinn var aftur á móti byrjaður í launalausu leyfi frá embættinu þann 1. september.

Október/nóvember: Lögmaður drengsins segir að fulltrúi sinn hafi hringt í lögregluna og ítrekað málið. Segir hann að svörin þá hafi verið að ekki hafi verið búið að úthluta málinu. 

1. desember 2017: Fulltrúi lögmannsins sendir tölvupóst á lögreglumann, sem átti að vera með málið, þar sem spurt er um gang málsins. Honum er ekki svarað.

5. desember 2017: Viðbótargögn send til sama lögreglumanns og áður. Er lögreglumaðurinn spurður hvort hann hafi fengið viðbótargögnin. Ekkert svar berst.

6. desember 2017: Lögreglumaðurinn, sem hafði verið fjarverandi vegna veikinda, sendir póstana áfram á staðgengil sinn.

21. desember 2017: Drengurinn mætir til skýrslutöku hjá lögreglu ásamt réttargæslumanni. Þeim hafði verið boðinn tími í skýrslutöku viku fyrr en það hafði ekki hentað. Lögmaður drengsins spyr við skýrslutökuna hvort ekki sé grundvöllur til að fara í húsleit hjá manninum ef það virðist vera eitthvað mikið í gangi á heimilinu.

17. janúar 2018: Málið rætt á vikulegum fundi deildarinnar þar sem kynna á öll ný mál sem koma inn á borð hennar.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn tekur við stjórn kynferðisbrotadeildarinnar.
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn tekur við stjórn kynferðisbrotadeildarinnar. mbl.is/Eggert

17. janúar 2018: Rannsóknarlögreglumaður málsins lætur lögreglufulltrúa deildarinnar kanna hvort maðurinn hafi verið með börn á vegum Barnaverndar eða verið starfsmaður hennar á árunum 2004-10. Einnig óskar hann upplýsinga um hvort þrír aðrir drengir hafi búið hjá manninum á sama tímabili. Sama dag sendir fulltrúinn tölvupóst á Barnavernd Reykjavíkur og spyrst fyrir um manninn. Nafn mannsins er tilgreint og að hann sé grunaður um að hafa framið kynferðisbrot.

Barnavernd svarar póstinum fjórum mínútum síðar og segir að málið verði kannað. Öðrum fjórum mínútum seinna spyr Barnavernd á hvaða lagagrundvelli beiðnin sé sett fram. Lögreglufulltrúinn svarar því 11 mínútum síðar og síðar um daginn svarar Barnavernd því að maðurinn sé á kvöldvakt næstu daga og að brýnt sé að víkja honum frá störfum á meðan á rannsókn standi.

18. janúar 2018: Yfirlögregluþjóni er kynnt málið strax um morguninn og einni og hálfri klukkustund síðar er maðurinn handtekinn. Síðdegis þennan dag er haldinn fundur með Barnavernd og lögreglustjóra kynnt málið.

29. janúar 2018: Sagt er frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Fram kemur að Barnavernd Reykjavíkur ætli að senda póst á 400 manns sem höfðu dvalið á vistheimilum þar sem maðurinn starfaði. Er fólkinu boðið í viðtal í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Síðar er sú tala sögð vera 257 einstaklingar.

30. janúar 2018: Lögmaður drengsins segist hafa margítrekað kæruna og að í kærunni kæmi fram að maðurinn ynni með börnum í dag. 

30. janúar 2018: Lögreglustjóri segist ekki kannast við ítrekanir lögmanns drengsins.

Sigríður Björk Guðjónsson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Eggert Jóhannesson

30. janúar 2018: Lögmaður drengsins segist vita um 10 einstaklinga sem hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu sama manns. 

30. janúar 2018: Yfirmaður kynferðisbrotadeildar segir að lögreglan hafi ekki haft upplýsingar um að maðurinn starfaði með börnum. Slíkt kom hins vegar fram í kæru málsins, eins og skýrsla Karls Steinars bendir á.

1. febrúar 2018: Lögreglan segir að rannsókn standi yfir vegna kynferðisbrota gegn sjö manns.

9. febrúar 2018: Lögreglan segir að til rannsóknar séu nú kynferðisbrot gegn að minnsta kosti níu börnum. 

12. febrúar 2018: Lögreglan heldur blaðamannafund og tilkynnir um niðurstöður innri athugunar á ferli málsins. Þar er meðal annars gagnrýnt að við frumgreiningu hafi ekki strax verið athugað með starfsvettvang mannsins.

Sig­ríður Björk Guðjóns­dótt­ir, lög­reglu­stjóri á höfuðborg­ar­svæðinu, segir á blaðamannafundinum að mis­tök lög­reglu liggi ekki í því að rann­sókn máls­ins hafi haf­ist of seint held­ur að barna­vernd­ar­yf­ir­völd­um hafi ekki verið til­kynnt þegar hún hófst. Enginn starfsmaður embættisins mun sæta ábyrgð vegna mistakanna og tafanna, en Sigríður segir að stefnt sé að því að gera um­fangs­mikl­ar skipu­lags­breyt­ing­ar, meðal ann­ars með því að styrkja yf­ir­menn sam­hliða fyr­ir­hugaðri fjölg­un starf­manna frá 1. apríl.

Sem fyrr segir kemur fram gagnrýni í skýrslunni á verklag innan deildarinnar og stjórnun og eftirfylgni málsins. Í skýrslunni segir að verklag við rannsókn kynferðisbrota hafi verið á þann veg að yfirmaður deildarinnar tók við öllum málum sem bárust deildinni, skráði þau og las yfir, tilkynnti til barnaverndarnefndar ef tilefni þótti til og afhenti svo lögreglufulltrúa til frekari úrvinnslu. Þá átti að gera ákærusviði umsvifalaust viðvart þegar kæmu inn mál frá barnaverndaryfirvöldum (sem ekki var staðan í þessu máli). Þá var tilkynnt í upphafi árs 2017, þegar farið var í sértækar aðgerðir innan lögreglunnar varðandi kynferðisbrot, að öll ný mál sem kæmu inn ætti að kynna á vikulegum fundum deildarinnar á miðvikudögum.

Þrátt fyrir þetta og að málið hafi verið kært upphaflega í ágúst 2017 var það aldrei tekið fyrir á þessum vikulegu fundum deildarinnar fyrr en 17. Janúar, tæplega fimm mánuðum eftir að kæran var lögð fram. Var maðurinn svo handtekinn strax næsta dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert