Dæmdur fyrir hótanir gegn lögreglu

Ummælin lét maðurinn falla vegna myndbands sem birtist þegar lögreglumenn …
Ummælin lét maðurinn falla vegna myndbands sem birtist þegar lögreglumenn sóttu hælisleitanda inn í Laugarneskirkju. Ljósmynd/Ekki fleiri brottvísanir

Karlmaður á sextugsaldri var í gær dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumönnum líkamstjóni á Facebook. Tilefni hótunarinnar var myndskeið sem birtist á vef Stundarinnar þar sem lögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra sjást sækja tvo hælisleitendur í Laugarneskirkju og leiða þá út árið 2016.

Þegar maðurinn deildi færslunni fylgdu eftirfarandi skilaboð með: „VARÚÐ – HÓTUNARSTATUS!  Ég vil fá að vita nöfn þessara tveggja lögreglubjána, útbólginna steraneitenda með hallærislegar „Game-of-Thrones“ klippingar sínar – því ég ætla heim til þeirra og berja þá í andlitið – nákvæmlega eins kjaftshögg og þeim finnst eðlilegt og sjálfsagt að berja mann í andlitið á kirkjutröppum – þar sem grið höfðu rofin og 16 ára gamall drengur dreginn burt með lögregluofbeldi“.

Maðurinn neitaði sök í málinu og sagði skrifin ekki vera hótun í garð umræddra lögreglumanna. Færslan hafi verið rituð í reiði, í kaldhæðni og af dómgreindarleysi. Fyrst og fremst hafi reiði hans beinst að því hvernig málsmeðferð hælisleitenda væri háttað hér á landi, en ekki að þeim lögreglumönnum sem sjáist á myndbandi og fylgi hælisleitandanum út úr kirkjunni. Hins vegar hafi honum gramist að annar lögreglumannanna hafi slegið til ungs manns sem stóð utan kirkjunnar og hafði uppi athugasemdir við aðgerðir lögreglunnar. 

Segir í dómi héraðsdóms að þrátt fyrir neitun mannsins þyki sannað að í orðum hans hafi falist hótun um að beita lögreglumennina líkamlegu ofbeldi og er sérstaklega vísað til orðanna „heim til þeirra og berja þá í andlitið“. Er hann því sakfelldur fyrir brotið.

Auk þess er maðurinn fundinn sekur um vopnalagabrot með því að hafa í fórum sínum skammbyssu af gerðinni Astra Falcon model 4000, 22 kalíbera, án tilskilinna leyfa. Játaði maðurinn það brot sitt skýlaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert