Ekki gert ráð fyrir hundunum

Freyja Kristinsdóttir og Boston terrier tíkin Dimmalimm. Freyja segir skorta …
Freyja Kristinsdóttir og Boston terrier tíkin Dimmalimm. Freyja segir skorta á að gert sé ráð fyrir hundaeigendum í borgarskipulagi. Ljósmynd/Aðsend

Lausagöngusvæði fyrir hunda hér á landi eru færri, minni og lélegri en erlendis og hvergi er raunar gert ráð fyrir hundaeigendum í skipulagi borgarlandsins. Þetta segir Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir og stjórnarmaður Félagi ábyrgra hundaeigenda  (FÁH).

Freyja hélt erindi um hundaborgina Reykjavík og hvar borgarbúar stæðu í samanburði við borgir í nágrannalöndunum á málþingi FÁH um helgina, en hún hefur haldið hund í bæði Danmörku og Bretlandi og þekkir því vel til.

„Það er í raun aldrei gert ráð fyrir neinum hundasvæðum í skiplagi borgarlandsins. Þannig að þegar það er verið að skipuleggja ný hverfi og teiknaðir eru inn leikvellir og annað slíkt, þá er aldrei gert ráð fyrir að neinir hundaeigendur eigi að búa þar,“ segir Freyja.

Viðhorfið virðist vera að hundagerði eða hundasvæði megi aldrei vera nálægt íbúðabyggð. „Það þekkist hins vegar víða erlendis; í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og öðrum nágrannalöndum okkar að hafa hundagerði nálægt íbúðabyggð,“ bætir hún við og kveður vel mega hanna hundagerði þannig að þau sómi sér vel í almenningsgörðum.

„Fólk á að geta gengið frá heimili sínu og í næsta hundagerði, þannig að þau ættu í raun að vera í öllum hverfum borgarinnar.“ Það sé hins vegar ekki raunin og nú séu hundaeigendur að fara að missa Geirsnefið sem hundasvæði. „Það er verið að endurskipuleggja það núna og þá er ekki gert ráð fyrir að þar verði hundasvæði áfram.“ Það sé því verið að þrengja að hundaeigendum.

Leyfisgjöldin tíðkast ekki annars staðar

Freyja segir hundaleyfisgjöldin líka skera Íslendinga frá öðrum þjóðum. „Þau tíðkast ekki annars staðar,“ segir hún. Alls nemi hundaleyfisgjöldin 35 milljónum á ári hjá Reykjavíkurborg og 70 milljónum þegar horft er til allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert af því fé fari hins vegar í að byggja upp hundasvæði, eða til að bæta hundahald með öðrum hætti.

Féð sé hins vegar að stærstum hlut notað í launakostnað tveggja hundaeftirlitsmanna í fullu starfi, starf ritara hundaeftirlits í fullu starfi, „sem ég raunar veit ekki hver er,“ bætir Freyja við „og svo erum við að borga fyrir þriðjung af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur“. Sú greiðsla sé hins vegar ekki í samræmi við hlutfall hundaeftirlitsins af starfsemi stofnunarinnar.  

Hundur með eiganda sínum. Mynd úr safni. Freyja segir ákveðna …
Hundur með eiganda sínum. Mynd úr safni. Freyja segir ákveðna fordóma í garð hunda áberandi hér á landi, þó mikið hafi breyst á undanförnum árum. AFP

Lausagönguhundum sem tilkynntir eru til hundaeftirlitsins hefur hins vegar fækkað gríðarlega, þó að hundum sé að fjölga. Árið 2010 var hundaeftirlitið að fanga 210 hunda á einu ári,  en árið 2016 voru þeir komnir niður í 62. „Ástæðan er sú að Hundasamfélagið var stofnað á Facebook og í gegnum þann hóp eru týndu hundarnir að komast aftur til síns heima,“ segir Freyja. 521 týndur hundur hefur verið auglýstur á Hundasamfélaginu það ár. „Þannig að hópurinn er smátt og smátt að taka yfir hlutverk hundaeftirlitsmanna.“

Engin stefna í hundamálum 

Skylduskráning hunda hjá sveitarfélögum hér á landi er líka ákveðin tímaskekkja að mati Freyju. „Nú eru komin dýraauðkenni sem er skylda að skrá í örmerkjagagnagrunn og það er tímaskekkja að vera með þessa tvískráningu,“ segir hún. Óþarfi sé að skrá dýrið bæði hjá borginni og í örmerkjagagnagrunninn. „Í nágrannalöndum okkar er bara verið að notast við örmerkjagagnagrunninn,“ útskýrir hún og bætir við að í London hafi skráning hjá sveitarfélaginu verið lögð niður þegar örmerkjagagnagrunnurinn var tekinn upp.

Viðhorf til hundahalds sé líka ólíkt hér á landi og í Danmörku og Bretlandi þar sem hún bjó. „Maður finnur alveg fyrir þekkingarleysi og hálfgerðum fordómum hér á Íslandi,“ segir Freyja. Þetta hafi þó breyst mikið á síðastliðnum 5-10 árum af því að hundaeign sé orðin svo algeng. Þetta er á leiðinni í rétta átt, en öll uppbygging í kringum hundahald fylgir ekki með.“ Tilraunaverkefni Strætó sé þó skref í rétta átt og sömuleiðis að leyfa hunda á kaffihúsum.

Hún segir skortinn á uppbyggingu raunar hafa komið fram á málþinginu hjá Sabine Leskopf, formanni heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. „Hún viðurkenndi að Reykjavíkurborg væri ekki með neina stefnu í hundamálum.“ Það væri hins vegar nokkuð sem þau hjá FÁH vildu sjá breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert