Launþegum fjölgar enn

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. Í desember voru launagreiðendur í greinum ferðaþjónustunnar …
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. Í desember voru launagreiðendur í greinum ferðaþjónustunnar 1.803 og launþegarnir um 25.900. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Launagreiðendum  og launþegum heldur áfram að fjölga að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar. Árið 2017, voru að jafnaði 17.599 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 658, eða 3,9%, frá árinu áður.

Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 188.600 einstaklingum laun og hafði launþegum fjölgað á tímabilinu um 8.500, eða 4,7%, frá fyrra ári.

Fjölgun launþega virðist m.a. vera í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en launþegum fækkar hins vegar í sjávarútvegi.

Í desember 2017 voru launagreiðendur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð 2.744 og launþegarnir í þessum greinum 13.100. Hafði launþegum fjölgað um 1.700, eða 15%, samanborið við desember 2016.

Í desember voru launagreiðendur í greinum ferðaþjónustunnar 1.803 og launþegarnir um 25.900. Fjölgun launþega í þessum geira nam 6%, og hafði launþegunum fjölgað um 1.600.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur launþegum í heild fjölgað um 7.500, eða 4%, á þessu sama tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert