Lokað vegna slyss austan við Selfoss

mbl.is/Hjörtur

Suðurlandsvegur rétt austan við Selfoss er lokaður vegna umferðaróhapps. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu.

Viðbragðsaðilar eru við vinnu á vettvangi.

Uppfært kl. 18:15: 

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Árnessýslu var um bílveltu að ræða. Fimm manns voru í bílnum, að öllum líkindum ferðamenn. Svo virðist vera sem einn farþegi hafi kastast út úr bílnum, og var hann fluttur rakleiðis til Reykjavíkur með sjúkrabíl.

Í fyrstu var talið að beita þyrfti klippum til að ná öðrum farþegum úr bílnum svo tækjabíll slökkviliðsins var sendur á staðinn. Hinir farþegarnir fjórir hafa verið fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar.

Mikil hálka er á svæðinu og éljagangur. Talið er að bíllinn hafi farið þrjár eða fjórar veltur. Gera má ráð fyrir að vegurinn verði lokaður á aðra klukkustund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert