Stúdentar fái aðkomu að endurskoðun LÍN

Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast samstarfs við stúdenta við endurskoðun LÍN.
Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast samstarfs við stúdenta við endurskoðun LÍN. mbl.is/Hjörtur

Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, krefjast þess að a.m.k. tveir fulltrúar nemenda verði skipaðir í starfshóp um endurskoðun laga Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN. Í dag samþykktu LÍS og sendu frá sér áherslur vegna breytinga á LÍN.

Áherslurnar snúa annars vegar að lögum lánasjóðsins og að úthlutunarreglum hans hins vegar. Fyrst og fremst krefjast LÍS samstarfs við stúdenta, enda sé LÍN til fyrir tilstilli stúdenta og því sé mikilvægt að rödd þeirra sé sterk við endurskoðun og almenna stjórn sjóðsins.

Uppfylli hlutverk sitt sem jöfnunarsjóður

Þá kemur fram að LÍN skuli starfa sem félagslegur jöfnunarsjóður en eins og staðan er í dag uppfylli hann ekki hlutverk sitt sem slíkur og því finnst LÍS mikilvægt að innleitt verði styrkjakerfi, byggt á einhverjum þeirra fyrirmynda sem finnast annars staðar á Norðurlöndunum.

Kosti núverandi lánasjóðskerfis telja LÍS vera tveggja ára tíma fram að afborgun eftir lokun skuldabréfs og tekjutengingu afborgana, og leggja áherslu á að svo verði áfram í nýju kerfi. Þá eru samtökin alfarið á móti hækkun vaxta og aldurstakmörkun lánþega.

Framfærsla miði við almennan leigumarkað

LÍS vilja að útborgun lána sé mánaðarlegar greiðslur í stað eingreiðslna og að reglur um hverjir eigi rétt til námslána eigi heima í lögum sjóðsins en ekki úthlutunarreglum.

Hvað úthlutunarreglur varðar krefjast LÍS þess að frítekjumark verði hækkað í samræmi við launaþróun og að grunnframfærsla verði að minnsta kosti 100% af grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarráðuneytisins, í stað 92% eins og nú er.

Þá vilja LÍS að LÍN taki tillit til þess að einungis 9% stúdenta búa í stúdentaíbúðum, en framfærsla stúdenta er miðuð við stúdentaíbúðir en ekki raunverulega þörf þeirra sem búa á almennum leigumarkaði. Þá vilja samtökin að lágmarksframvindukröfur verði færðar úr 22 ECTS einingum í 18 og að lánshæfar einingar verði 600 í stað 480.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert