Þök og bílar fjúka vestan Hornafjarðar

Glærahálka er á veginum og vindhviður hafa verið allt að …
Glærahálka er á veginum og vindhviður hafa verið allt að 35 m/s. Ljósmynd/Friðrik Jónas Friðriksson

Sex bílar hið minnsta hafa fokið út af veginum vestan við Höfn í Hornafirði í dag og þök hafa fokið af húsum, en mikið hvassviðri er á svæðinu.

Friðrik Jónas Friðriksson, hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar, segir búið að ná öllum bílunum upp á veg aftur nema flutningabílnum, en von sé á stórvirkum vinnuvélum til að sækja hann.

„Síðan fuku þök af þremur húsum,“ segir hann. Eitt húsanna sem þakið fór af var frístundahús, en auk þess fauk þak af tveimur hlöðum. „Við erum búnir að vera að tína þetta saman og koma þessu skjól,“ bætir hann við og kveður þakplöturnar komnar á öruggan stað.

15 björgunarsveitarmenn frá Björgunarfélagið Hornafjarðar eru búnir að vera að störfum á svæðinu í þremur hópum.

Björgunarsveitarmenn að störfum. Þak fauk af þremur húsum, þar á …
Björgunarsveitarmenn að störfum. Þak fauk af þremur húsum, þar á meðal þessu frístundahúsi. Ljósmynd/Friðrik Jónas Friðriksson

Fá að keyra undir eftirliti

Mjög hvasst hefur verið á svæðinu í morgun og hefur gengið á með hviðum, auk þess sem mikil hálka er á veginum frá Nesjahverfinu og inn að Hornafjarðarfljóti. „Það er kannski það sem er vandamáliðið,“ segir Friðrik Jónas og bætir við að öflugustu hviðurnar séu allt upp í 35 m/s. „Þegar það er glæruhálka á veginum og það er kominn 35 m/s vindstrengur ofan á það, að þá er maður ekkert í rosa góðum málum.“

Búið er að loka veginum á vef Vegagerðarinnar og björgunarsveitarmenn vakta nú vegakaflann. „Menn fá að keyra þetta undir eftirliti,“ segir Friðrik Jónas.

„Veðurfræðingur talaði um að hann myndi snúa sér í hádeginu og þetta lagast, en svo fáum við þetta tvíeflt í fyrramálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert