Útlit fyrir austanstorm á flestum heiðum

Lægðin fer yfir landið næstu klukkutímana og má þá búast …
Lægðin fer yfir landið næstu klukkutímana og má þá búast við austanstormi á flestum heiðum. Kort/Veðurstofan

Tekið er að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og gera má ráð fyrir að vindur aukist næstu 1-2 tímana. Teitur Arason, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands, segir lægðarmiðjuna vera á þeim stað sem spár gerðu ráð fyrir.

Gul viðvörun er í gildi fyrir nær allt land í dag.

„Hún er núna við suðausturströndina. Hún fer síðan yfir landið og það er í kringum þessa lægðarmiðju sem snjókoma og hvass vindur mun valda einhverjum truflunum í dag,“ segir Teitur.

„Það er búið að vera að slá í storm á Suðausturlandi og á heiðunum austanlands. Síðan færir þetta sig og kemur svo betur yfir á allt landið næstu klukkustundirnar,“ bætir hann við. Þá verði væntanlega austanstormur á flestum heiðum með tilheyrandi vandræðum.

Höfuðborgarsvæðið er sunnan við lægðarmiðjuna og verður því minni vindur þar en norðan við lægðina, en engu að síður getur skyggni orðið verulega slæmt og þá getur færð á vegum spillst vegna snjókomunnar. „Ég á von á að vindurinn aukist næstu 1-2 tímana og verði í kringum 10 m/s sem er nóg til að hreyfa snjóinn,“ segir Teitur.

Veðurstofan hvetur fólk því til að fylgjast vel með vef Vegagerðarinnar, enda ekki útilokað að einhverjir vegir kunni að lokast vegna ófærðar.

Ólíkt lægðinni sem olli töluverðum usla um helgina og var nokkuð þaulsetin, þá mun þessi lægð hins vegar fjarlægjast landið síðdegis og verður komið rólegt veður í kvöld.

Það stendur þó ekki lengi, því aftur er von á stormi á morgun. Sú lægð er „annars eðlis, er stór og mikil um sig og miðja hennar heldur sig á djúpunum suður af landinu. Hún sendir hins vegar skil yfir landið og í þeim er austanstormur og úrkoma. Við þessar aðstæður myndast jafnan skæður vindstrengur syðst á landinu, nánar tiltekið í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli og þaðan allt austur í Öræfi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Hlýrra loft verði þó samfara þeirri lægð og því megi eiga von á rigningu, slyddu og snjókomu í bland.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert