Vigdís líkleg til að hrista upp í hlutunum

Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur.
Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

„Vigdís er nú líkleg til þess að hrista eitthvað upp í þessu,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, inntur álits á nýjustu vendingum í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Tilkynnt var á dögunum að Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, væri oddviti og borgarstjóraefni Miðflokksins fyrir kosningarnar sem fara í vor.

Grétar segir að fyrirfram megi ætla að Miðflokkurinn gæti tekið fylgi frá bæði Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Það verði allavega að teljast líklegra en að einhverjar opnar pípur liggi á milli Miðflokksins og til dæmis Samfylkingarinnarm, Vinstri-grænna eða Viðreisnar. Hins vegar eigi enn eftir að koma betri mynd á fylgismálin. Fleiri skoðanakannanir þurfi til að mynda til þess.

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Stórar sviptingar hafi almennt séð ekki verið í nýlegri skoðanakönnun fyrir Viðskiptablaðið. Það hafi ekki endilega komið mjög á óvart að Samfylkingin hafi lækkað aðeins og Sjálfstæðisflokkurinn farið aðeins upp. Hins vegar hafi könnunin að mestu verið gerð áður en niðurstaða leiðtogavals sjálfstæðismanna hafi legið fyrir. Það yrði því fróðlegt að sjá hvað fleiri kannanir segðu. Hins vegar færi fylgi Bjartrar framtíðar vel niður.

„Mestu tíðindin eru kannski að Píratar séu að hressast talsvert og síðan mælist Viðreisn með talsvert fylgi sem myndi miðað við könnunina skila þeim einhverjum borgarfulltrúum þar sem þeim verður fjölgað í vor. Hugsanlegt er að um samstarf verði að ræða á milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Framsókn mælist ekki há núna en gætu vel tryggt sér einhverja fulltrúa. Fjölgun borgarfulltrúa er annars líkleg til þess að auka áhuga fólks á að fara í framboð enda þýðir fjölgunin meiri möguleika á að komast inn.“

Spurður hvort fjölgunin sé til þess fallin að auka möguleika á myndun meirihluta í borgarstjórn og hvort marga flokka þurfti til þess segir Grétar það fara mikið eftir því auðvitað hvernig fylgið eigi eftir að raðast. Hvort fylgið dreifist jafnt eða hvort stóru flokkarnir tveir mun meira fylgi en aðrir flokkar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert