Ákærð fyrir 59 milljóna fjárdrátt

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært konuna fyrir fjárdrátt.
Embætti héraðssaksóknara hefur ákært konuna fyrir fjárdrátt. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kona á fertugsaldri hefur verið ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa dregið sér samtals 59,2 milljónir á átta ára tímabili sem framkvæmdastjóri einkahlutafélags í eigu hennar og móður sambýlismanns hennar. Voru fjármunirnir færðir á reikninga í  eigu hennar og sambýlismanns hennar, teknir út í reiðufé og einnig ráðstafað í ýmiskonar neyslu á árunum sem um ræðir.

Eftir að fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota árið 2014 millifærði konan í 14 skipti samtals 4,4 milljónir af bankareikning þess yfir á sína persónulega reikninga.

Samkvæmt ákæru málsins nam fjárdrátturinn 1,5 milljónum árið 2007 og rúmlega 4 milljónum árið 2008. Árið 2009 var hann aðeins 20 þúsund og árið 2010 um 100 þúsund, en fór svo á flug að nýju árið 2011 þegar hann var 7,7 milljónir. Árið 2012 er svo ákært fyrir 13,8 milljóna fjárdrátt, árið 2013 fyrir 17,2 milljónir og árið 2014 fyrir 14,9 milljónir.

Konan notaði debetkort fyrirtækisins meðal annars til að kaupa skyndibita í fjölmörg skipti, afborganir af mótorhjóli, eldsneyti, matvöru, leikföng og fatnað. Þá var það notað til að greiða fyrir ýmiss útgjöld erlendis, eins og hótelgistingu, fatakaup og veitingastaði.

Konan er auk þess ákærð fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald frá árinu 2011 til 2014, en samkvæmt ársreikningi ársins 2010 kom upp eldur í starfstöð fyrirtækisins og töpuðust við það öll bókhaldsgögn félagsins. Rak félagið meðal annars bónstöð og þá stundaði það flutninga ýmiss konar. Voru tekjur félagsins það ár aðeins skráðar samkvæmt virðisaukaskattskilum.

Árin 2007 og 2008, árin sem meintur fjárdráttur hófs, voru tekjur félagsins innan við 10 milljónir á ári og var tap af rekstri þess 5,3 milljónir árið 2007, þegar ákært er fyrir fjárdrátt upp á 1,5 milljón. Tap árið 2008 var hins vegar 35 milljónir, þar af 25 milljónir í gengistap, en það ár er áætlaður fjárdráttur um 4 milljónir.

Sambýlismaður konunnar er ekki ákærður í málinu, en fram kemur í ákærunni að konan hafi millifært yfir 16 milljónir á reikning hans á tímabilinu sem um ræðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert