„Algjörlega blint“ í Vík

Talsvert hefur snjóað í Vík.
Talsvert hefur snjóað í Vík. Ljósmynd/Anna Lára Pálsdóttir

„Hér er bara stuð. Það er mjög vont veður og algjörlega blint. Það tékkar sig enginn héðan út fyrr en í fyrsta lagi á hádegi,“ segir Anna Lára Pálsdóttir, starfsmaður móttöku á Hótel Kötlu, sem er um fimm kílómetra fyrir austan Vík. 

Hótelið var fullbókað í nótt og einnig er það fullbókað næstu nótt. Anna Lára segir að það verði að koma í ljós hvort gestir muni koma til með að geta komist á staðinn fyrir nóttina en þjóðvegur 1 er lokaður frá Hvolsvelli og austur að Jök­uls­ár­lóni vegna veðurs, en hviður allt að 50 m/​s hafa mælst und­ir Eyja­fjöll­um í morg­un.

Hún segir að ekki væsi um ferðamennina á hótelinu og að þeir séu almennt nokkuð slakir yfir veðrinu. „Flestum finnst þetta vera mikið ævintýri en nokkrir eru hræddir,“ segir hún. 

Hótel Katla hefur nánast snjóað inni.
Hótel Katla hefur nánast snjóað inni. Ljósmynd/Anna Lára Pálsdóttir

Nánast að verða vön tíðum lokunum

Hún segir veðrið og lokanirnar setja strik í reikninginn á starfsemi hótelsins. Ekki er til dæmis hægt að þrífa herbergin fyrir næstu gesti ef þeir sem fyrir eru hafa ekki yfirgefið hótelið. „Annars erum við farin að venjast þessu. Það hefur verið svo mikið um lokanir í vetur,“ segir Anna Lára.

Veitingastaðurinn á hótelinu verður opnaður í hádeginu fyrir gesti hótelsins en þeir eru eingöngu ferðamenn. Alla jafna er veitingastaðurinn eingöngu opinn á kvöldin og á morgnana þegar boðið er upp á morgunmat.   

Bílarnir misvel búnir fyrir vetrarfærðina

Eins og fyrr segir eru eingöngu ferðamenn á hótelinu. Flestir komu með rútu og örfáir komu á eigin vegum á bílaleigubíl. Spurð hvernig bílarnir séu útbúnir segir hún þá vera misvel útbúna fyrir vetrarfærðina. 

Anna Lára segir veðrið núna vera verra en í morgun. Hún var mætt til vinnu klukkan sjö í morgun. „Það var rosalega blint. Ég sá varla milli stika,“ segir hún og bætir við að bíllinn hafi ratað af gömlum vana á hótelið.   



Það hefur skafið í hressilega skafla í Vík.
Það hefur skafið í hressilega skafla í Vík. Mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert