Ítrekað stoppuð undir áhrifum lyfjakokteils

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Kona um fertugt var í dag dæmd í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 2 milljónir í sakarkostnað fyrir að hafa í tíu skipti frá apríl til og með september í fyrra ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja. Var hún meðal annars stöðvuð fimm sinnum á níu daga tímabili í september. Þá var konan svipt ökuréttindum í fimm ár.

Samkvæmt dómi málsins var konan í öll skiptin undir áhrifum lyfjakokteils, en sem dæmi mældist í eitt skipti amfetamín, alprazólam, kódein, nítrazepam og zópiklón í blóði hennar. Til viðbótar við þessi efni var stundum samhliða þessum efnum kókaín, MDMA eða metamfetamín sem mældist í blóði hennar, ásamt öðrum lyfseðilsskyldum slævandi lyfjum.

Var dómurinn í dag hegningarauki við fyrri dóm hennar frá því í október á síðasta ári þegar hún var dæmd í 30 daga fangelsi fyrir svipuð brot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert