Norðlingaskóli hlaut minningarverðlaun Arthurs

Handhafar Minningarverðlauna Arthurs Morthens 2018. Stoltir fulltrúar nemenda, foreldra og …
Handhafar Minningarverðlauna Arthurs Morthens 2018. Stoltir fulltrúar nemenda, foreldra og starfsfólks í skóla- og frístundastarfinu í Norðlingaholti. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Minningarverðlaun Arthurs Morthens voru afhent í annað sinn á öskudagsráðstefnu reykvískra grunnskólakennara í dag og komu í hlut Norðlingaskóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Verðlaunin eru veitt í nafni Arthurs Morthens sem lést árið 2016. Hann vann um ára­tuga skeið sem sér­fræðing­ur á sviði sér­kennslu í grunn­skól­um Reykja­vík­ur og var brautryðjandi við að inn­leiða þar stefnu um skóla án aðgrein­ing­ar.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Norðlingaskóli býður alla nemendur velkomna og fagnar fjölbreytileikanum. Starfið einkennist af samvinnu, vellíðan, gleði, öguðu frjálsræði, lýðræði, notalegum vinnuaðstæðum, fjölbreytni og sveigjanleika. Lögð er áhersla á mikla samvinnu starfsfólks, faglega umræðu og nýbreytni og að allir starfsmenn beri ábyrgð á að framfylgja stefnu Norðlingaskóla í skóla fjölbreytileikans. Kennarar starfi saman í umsjónarteymum þar sem jafnframt starfi sérkennarar sem vinni með teyminu að skipulagi náms og kennslu fyrir alla nemendur svo tryggt sé að allir séu fullgildir þátttakendur í námshópnum.“

Dómnefnd var skipuð fulltrúum frá foreldrasamtökum, Kennarafélagi Reykjavíkur, Félagi íslenskra sérkennara og skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Það var foreldrafélag Norðlingaskóla sem tilnefndi skólann til Minningarverðlauna Arthurs Morthens.
Fimm grunnskólar voru tilnefndir til verðlaunanna: Brúarskóli, Hólabrekkuskóli, Laugarnesskóli, Rimaskóli og Norðlingaskóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert