Réðst á konu eftir að hafa fengið yfirlit yfir símanúmer fyrrverandi eiginmanns

Fyrrverandi eiginkona mannsins fékk útprentað yfirlit yfir símanúmer hans hjá …
Fyrrverandi eiginkona mannsins fékk útprentað yfirlit yfir símanúmer hans hjá Nova. Þar sá hún við hverja hann hafði talað í síma og hverjum hann hafði sent SMS-skilaboð. AFP

Nova braut lög um persónuvernd með því að miðla persónuupplýsingum til fyrrverandi eiginkonu manns sem leiddi síðan til þess að konan réðst með ofbeldi á aðra konu sem maðurinn hafði átt í samskiptum við.

Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar. 

Fram kemur að maðurinn hafi kvartað til Persónuverndar í júní í fyrra yfir miðlun Nova á persónuupplýsingum um hann. 

Í kvörtuninni kemur meðal annars fram að fyrrverandi eiginkona mannsins fékk útprentað yfirlit yfir símanúmer hans hjá Nova, sem skráð var á fyrirtæki. Þar sá konan við hverja hann hafði talað í síma og hverjum hann hafði sent SMS-skilaboð.

Segir að hún hafi komið auga á að maðurinn hafði verið í samskiptum við tiltekna konu, sem hún þekkti til. Hafi hún í framhaldinu farið til konunnar og ráðist á hana með ofbeldi. Maðurinn upplýsti að sú líkamsárás hefði verið kærð til lögreglu.

Segja að konan hafi villt á sér heimildir

Fram kemur í svarbréfi Nova í október, að fyrrverandi eiginkona mannsins hefði gefið í skyn að hún væri að óska eftir umræddum gögnum fyrir hönd fyrirtækisins og villt á sér heimildir með því að framvísa greiðslukorti með nafni fyrirtækisins. Hafi hún þannig blekkt þann starfsmann Nova sem afhenti henni umbeðnar upplýsingar.

Kemur því fram að Nova telji að frumástæða þess að konan komst yfir upplýsingarnar megi rekja til blekkinga hennar. Aftur á móti segir að starfsmaður Nova hafi gert mistök með afhendingu upplýsinganna, þar sem vinnulag Nova geri ekki ráð fyrir að upplýsingar af þessu tagi séu afhentar þeim sem um þær biður, jafnvel þótt það sé skráður notandi eða greiðandi vegna símanúmersins, heldur sé þeim sem óskar slíkra upplýsinga bent á að nálgast þær á læstu vefsvæði viðkomandi á þjónustuvef Nova.

Þá er tekið fram að eftir atvikið hafi stjórnendur Nova hitt manninn og útskýrt sína hlið mála. Einnig kemur fram, að Nova hafi hafi skerpt enn frekar á starfsreglum sínum í kjölfar atviksins til að freista þess að útiloka með öllu að rangur aðili geti villt á sér heimildir og þannig öðlast á grundvelli blekkingar aðgang að upplýsingum sem honum séu óviðkomandi.

Miðlun upplýsinganna var óheimil

Fram kemur í úrskurði Persónuverndar, að miðlun upplýsinganna hafi verið óheimil. Og að Nova hafi borið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að upplýsingarnar kæmust í hendur óviðkomandi, til dæmis með því að tryggja að sá sem óski afhendingar sé skráður sem þar til bær aðili fyrir hönd fyrirtækisins.

„Verður ekki séð að þetta hafi verið gert og var því brotið gegn ákvæðum 11. gr. laga nr. 77/2000,“ segir í úrskurðinum.

Þá segir, að Persónuvernd hafi lagt fyrir Nova að senda stofnuninni afrit af nýjum reglum eigi síðar en 15. febrúar, auk upplýsinga um hvernig fræðslu til starfsmanna er háttað um efni verklagsreglnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert