Þarf að afplána eftirstöðvar reynslulausnar

Maðurinn þarf að afplána eftirstöðvar refsingarinnar, en sterkur grunur er …
Maðurinn þarf að afplána eftirstöðvar refsingarinnar, en sterkur grunur er um að hann hafi rofið skilorð. mbl.is/Hari

Maður sem hlotið hafði reynslulausn í lok júní á síðasta ári mun þurfa að afplána eftirstöðvar 220 daga refsingar sinnar í fangelsi, en hann er undir sterkum grun um fjölda brota á reynslutímanum, meðal annars nytjastuld, vörslu fíkniefna og líkamsárás á starfsmann verslunar í Reykjavík á nýársdag.

Héraðsdómur úrskurðaði í síðustu viku að maðurinn skyldi afplána eftirstöðvar refsingarinnar, en maðurinn kærði niðurstöðuna til Landsréttar meðal annars á þeim forsendum að héraðsdómari hafi verið búinn að semja úrskurðinn áður en þinghaldið fór fram, en úrskurðurinn var afhentur strax að loknum málflutningi.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að hvorki úrskurðurinn né þingbók málsins gefi til kynna að dómarinn hafi ekki hlýtt á röksemdir aðila fyrir kröfum sínum við meðferð málsins áður en hann tók endanlega afstöðu.

Staðfestir Landsréttur svo fyrri úrskurðinn og vísar til þess að þau brot sem maðurinn er undir sterkum grun að hafa framið geti varðað allt að sex ára fangelsi. Þá sé á það fallist að með þeim hafi maðurinn rofið á reynslutíma gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert