Umfangsmiklar lokanir vega

Eins og sjá má á færðarkorti Vegagerðarinnar frá kl. 13.55 …
Eins og sjá má á færðarkorti Vegagerðarinnar frá kl. 13.55 eru margir vegir lokaðir á Suðvesturlandi og víðar. Skjáskot

Allflestir vegir í uppsveitum Árnessýslu ásamt Hellisheiði, Þrengslum og Suðurstrandarvegi eru nú lokaðir. Björgunarsveitir í Árnessýslu og af höfuðborgarsvæðinu eru á fullu við að aðstoða ökumenn um alla sýsluna. Í frétt á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi segir að um 150 manns séu fastir í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum og talsverður fjöldi bæði á Gullfossi og Geysi.

Uppfært: Búið er að opna veginn milli Hveragerðis og Selfoss. Þá er einnig búið að opna veginn frá Vík og austurúr.

Ferðamönnum sem ekki hafa komist leiðar sinnar frá Selfossi hefur verið vísað í fjöldahjálparstöð RKÍ við Eyraveg, segir í frétt lögreglunnar.

 Óvissustigi hefur verið lýst yfir á Súðavíkurhlíð og veginum verður lokað kl 17:00 í dag. 

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru eftirtaldar leiðir nú lokaðar:

Hellisheiðin, Þrengsli, Sandskeið, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðar. Þjóðvegur 1 frá Hvolsvelli að Jökulsárlóni er lokaður. Búið er að loka Biskupstungnabraut og frá Laugarvatni og að Gullfossi. Suðurstrandarvegur er líka lokaður. 

Vegurinn undir Hafnarfjalli er einnig lokaður og sömu sögu er að segja um Bröttubrekku, Fróðárheiði og leiðina á milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar. Þá er Hólasandur lokaður.

Einnig er búið að loka vegum um Öxnadalsheiði, Víkurskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Fjarðarheiði.

Hins vegar er búið að opna Holtavörðuheiði að nýju en þar er snjóþekja og skafrenningur.

Færð er þung víða annars staðar á landinu, m.a. eru fjallvegir á sunnanverðum Vestfjörðum ófærir og beðið hefur verið með mokstur. Sömu sögu er að segja í Ísafjarðardjúpi, á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Á vef Vegagerðarinnar má sjá nýjustu fréttir af færð sem uppfærðar eru reglulega. 

Veðurvefur mbl.is

Í athugasemdum veðurfræðings Veðurstofu Íslands segir að í dag sé búist við ofsaveðri syðst á landinu og mjög snörpum vindhviðum við fjöll. Víða verður lítið skyggni í hríðinni á þeim slóðum. 

Óvenjumargir vegir eru nú lokaðir vítt og breitt um landið …
Óvenjumargir vegir eru nú lokaðir vítt og breitt um landið vegna veðurs. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert