Fleiri inn um svefnherbergisglugga

Innbrotum hefur fjölgað að undanförnu.
Innbrotum hefur fjölgað að undanförnu.

Tvær tilraunir voru gerðar af innbrotsþjófum á höfuðborgarsvæðinu aðfararnótt þriðjudags til að komast inn um svefnherbergisglugga.

Þetta segir Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, og á þar einungis við mál sem snúa að viðskiptavinum fyrirtækisins.

Rúða losuð og gluggi spenntur upp

Í báðum tilfellunum var hreyfiskynjari í svefnherbergjunum og fór viðvörunarkerfið því í gang, sem varð til þess að þjófarnir hurfu á brott. Í öðru tilfellinu var rúða losuð í burtu til að komast inn en í hinu hafði glugginn verið spenntur upp.

Hjörtur Freyr tekur fram að fyrir ekki svo mörgum árum hafi verið óalgengt að setja upp skynjara í svefnherbergjum. Það sé núna að breytast. Upp á síðkastið virðast tilraunir til innbrota beinast að því rými. 

„Það er fylgst með húsum og mannaferðum. Menn vita ef þú ert í burtu erlendis, menn vita hvenær þú ferð í vinnuna,“ segir hann.

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

28 innbrotstilraunir í janúar

Að sögn Hjartar Freys er innbrotafaraldur í gangi á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir og brotist er inn bæði á nóttu sem degi. Alls voru 28 innbrotstilraunir gerðar í húsnæði viðskiptavina Securitas í janúar. Tilraunirnar voru 13 mánuði að meðaltali í fyrra.

Lögreglan greindi frá því í síðasta mánuði að inn­brot­um í heima­hús á höfuðborg­ar­svæðinu, einkum í Kópa­vogi og Garðabæ, hafi fjölgað tölu­vert frá miðjum des­em­ber og fram í janú­ar. Grun­ur leik­ur á að um skipu­lagða brot­a­starf­semi sé að ræða.

Fram kom að oft­ar en ekki virðast skart­grip­ir og pen­ing­ar á heim­il­um vera geymd­ir í svefn­her­bergj­um og þangað hafa þjóf­arn­ir leitað. Sagði lögreglan að þótt þjófa­varna­kerfi séu á mörg­um heim­il­um virðist sem hrey­fiskynj­ar­ar séu ekki staðsett­ir í eða við svefn­her­bergi og það sé um­hugs­un­ar­efni. Oft­ast er brot­ist inn í ein­býl­is­hús.

Aðspurður segir Hjörtur Freyr innbrotsþjófa vera orðna klókari og skipulagðari en áður. Því sé mikilvægt að húsnæðiseigendur uppfæri öryggiskerfi sín, setji verðmæti inn í læstar hirslur, kveiki ljós, láti taka póstinn fyrir sig og moki frá hurðum. Nágrannavarsla skiptir einnig miklu máli.

Af stað þegar boð berast

Spurður út í innbrot á sunnudagskvöld þar sem skartgripum og fleiri verðmætum var stolið og þjófurinn sást á eftirlitsmyndavél segir Hjörtur Freyr að starfsmenn Securitas hafi verið fljótir á staðinn. Vinnuferlið er þannig að um leið og boð berast frá öryggiskerfi fer sá bíll sem er næstur staðnum af stað. Þá er annars bíll sendur frá stjórnstöð og á meðan er verið að hringja í húsráðendur eða þá tengiliði sem er skráðir í kerfið.

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

8 mínútur að meðaltali á vettvang 

Meðalviðbragðstími fyrirtækisins undanfarna 12 mánuði er um 8 mínútur og á það við um allt stórhöfuðborgarsvæðið, en það er með 12 bíla á vakt hverju sinni dreifða um allt svæðið.  Viðbragðstími í innbrotinu á sunnudaginn var innan þess meðaltíma, samkvæmt kerfum fyrirtækisins og kom öryggisbíll kom skömmu síðar, að sögn Hjartar Freys.

Fram kom í fréttinni að þjófurinn hefði verið í hálftíma inni í íbúðinni. Hjörtur getur hvorki staðfest það né hrakið, en miðað við skráningar á stjórnstöð Securitas hefur hann að öllum líkindum látið sig hverfa þegar kerfið fór af stað. Hvað hann hafi verið lengi áður eða hvað hann hafi verið að gera sé ómögulegt að segja, enda er slíkt trúnaðarmál á milli aðila.

Tekur hann fram að fyrirtækið leggi gríðarlegan metnað í skjótan viðbragðstíma en auðvitað sé hver mínúta lengi að líða þegar mikið liggur við.

mbl.is/Þórður Arnar

Sumarbústaðir oft seldir

Hjörtur Freyr segir afar erfitt fyrir marga eigendur þegar þeir sjá myndir úr eftirlitsmyndavélum af þjófum inni á heimilum sínum eða í sumarbústöðum. „Þetta er ömurleg tilfinning fyrir fólk. Ef þetta gerist í sumarbústöðum er nær undantekningarlaust að bústaðurinn er seldur, þetta er svo rosaleg innrás inn í einkalífið. Mönnum líður ekki vel eftir þetta.“

Um 6 þúsund boð á mánuði

Varðandi starf Securitas almennt nefnir Hjörtur Freyr að útköllin tengist margvíslegum boðum, innbrotum, reyk og eldi og vatnsleka, svo eitthvað sé nefnt. 

Samtals bárust fyrirtækinu 71.496 boð frá öryggiskerfum árið 2017 eða að meðaltali 5.958 á mánuði.  Mörg þeirra eru þó afturkölluð sem falsboð en öll boð eru afgreidd sem raunútköll þangað til annað kemur í ljós og öryggisverðir sendir á vettvang. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert