Hlýr og skemmtilegur maður

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, kynntist Hinriki prins vel.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, kynntist Hinriki prins vel. mbl.is/Golli

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hitti Hinrik prins, sem lést í fyrradag, margoft og tókust með þeim góð kynni og vinátta. „Ég kynntist Hinriki prins býsna vel og minnist hans með mikilli virðingu og hlýju. Hann var viðræðugóður, afar skemmtilegur og víðlesinn. Hann var sérlega hlýr maður,“ segir Vigdís í samtali við Morgunblaðið í dag.

Leiðir þeirra lágu fyrst saman þegar Vigdís fór í sína fyrstu opinberu heimsókn sem forseti til Danmerkur. Síðan áttu þau eftir að fara saman bæði til Bandaríkjanna og Japans á vegum kynningarátaksins Scandinavia Today þar sem listir og menning Norðurlandanna voru kynnt. „Þar kynntumst við mjög vel. Ég naut þeirra forréttinda að tala frönsku og við náðum prýðilega vel saman á því tungumáli, honum fannst alltaf best að tala það, þótt hann hafi líka talað ágæta dönsku.“

Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Danadrottningar, lést í fyrradag, 83 ára …
Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Danadrottningar, lést í fyrradag, 83 ára að aldri. AFP

Vigdís hitti Hinrik prins síðast fyrir um fjórum árum. Það var á degi franskrar tungu í Danmörku, en af því tilefni var efnt til móttöku í Amalienborgarhöll. „Þarna var mikið um að vera en hann bauð mér í hliðarsal og vildi endilega að ég kæmi og skoðaði listaverkin sem þar voru. Hann vissi allt um þau og kunni sögu hvers einasta listmunar sem þarna var.“

Vigdís segir að eitt af því sem hafi einkennt Hinrik prins hafi verið gamansemi hans. „Hann var svo mikill húmoristi og það var gaman að koma auga á eitthvað spaugilegt með honum. Hann var afar franskur Fransmaður, en líka heimsmaður og hafði gríðarlega mikinn áhuga á listum. Ef það væri til gott orð á íslensku fyrir að vera „sjarmerandi“, þá myndi ég nota það orð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert