HM með stærri verkefnum sendiráðsins

Íslenska landsliðið spilar í lokakeppni HM í Rússlandi í sumar.
Íslenska landsliðið spilar í lokakeppni HM í Rússlandi í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vissum að þetta yrði með stærri verkefnum sem sendiráðið hefur haft síðustu árin. Það sem kom kannski á óvart var hversu snemma það byrjaði,“ segir Hafrún Ö.Þ. Stefánsdóttir, sendiráðsfulltrúi í íslenska sendiráðinu í Moskvu um undirbúninginn fyrir HM í Rússlandi í sumar.

Hún var viðstödd upplýsingafund utanríkisráðuneytisins og KSÍ um praktísk atriði varðandi ferðalög Íslendinga til Rússlands til að fylgjast með heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

„Af því að þetta er svo stórkostleg reynsla fyrir okkur þá urðu allir svo spenntir, svo snemma, þannig að álagið sem við reiknuðum með að kæmi um og upp úr páskum byrjaði eiginlega strax í desember.“

Auk Hafrúnar starfa í sendiráðinu Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra, Ágúst Flygerning, staðgengill sendiherra og þrír rússneskir starfsmenn.

Hafrún Stefánsdóttir, starfsmaður íslenska sendiráðsins í Rússlandi.
Hafrún Stefánsdóttir, starfsmaður íslenska sendiráðsins í Rússlandi. mbl.is/Freyr

Ekki meira en 70% álag á gistingu

Nokkuð hefur verið um að óprúttnir aðilar ætli að maka krókinn með því að margfalda verð á gistirými í kringum leikina á HM. Meðal annars hafa íslenskir stuðningsmenn lent í því að gistingu þeirra hefur verið sagt upp en þeim boðið að kaupa hana aftur á mun hærra verði.

Hafrún bendir á að Rússar hafi sett lög árið 2016 um að þegar stórviðburðir eru haldnir eins og HM sé ekki heimilt að leggja meira en 70% á venjulegt gistináttagjald, hugsanlega af fenginni reynslu vegna Vetrarólympíuleikanna í Sochi í Rússlandi. Allt umfram það er ólöglegt og við því á að bregðast, meðal annars með því að sekta viðkomandi. Ekki er þó víst hver er réttur kaupenda gistingarinnar í þessu samhengi.

Að sögn Hafrúnar hefur verið fjallað um margfaldar og ólöglegar hækkanir á gistináttagjaldi í Rússlandi síðustu vikur og meðal annars hefur Pútín Rússlandsforseti tjáð sig um þær. „Ráðamenn hafa tekið það skýrt fram að þetta sé ólöglegt samkvæmt rússneskri löggjöf og sækja fast eftir því að fólk tilkynni um þessi mál og að tekið verði á þeim sem svona hafa hagað sér.“

Hún hvetur Íslendinga sem hafa lent í þessu til að hafa samband við rússneska sendiráðið í Reykjavík en hingað til hefur enginn sem hefur lent í þessu haft samband, hvorki við það né íslenska utanríkisráðuneytið.

Íslenska landsliðið á Laugardalsvelli.
Íslenska landsliðið á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

18 klukkustundir í lest

Íslenska landsliðið spilar í borgunum Moskvu, Volgograd og Rostov gegn Argentínu, Nígeríu og Króatíu dagana 16. til 26. júní. Hér má finna upplýsingar um borgirnar þar sem HM fer fram.

Stuðningsmenn íslenska landsliðsins hafa kost á því að ferðast ókeypis með lestum á milli borga, með því að nota sérstakt stuðningsmannaskírteini. Einnig er ókeypis að ferðast innan borganna með almenningssamgöngum á leikdegi. Bóka þarf ferðirnar fyrirfram.

Að sögn skipuleggjenda verður boðið upp á um 700 aukalestarferðir á meðan á keppninni stendur, sem þýðir að um 450 þúsund sæti verða í boði í heildinni. Notast verður við nútímalegar lestir með loftkælingu og veitingasölu, sem eru að hámarki 5 til 6 ára gamlar.

Stuðningsmannaskírteinið (e. Fan ID) gildir einnig sem vegabréf og til að komast inn á knattspyrnuleikvanga þarf bæði að hafa miðann á leikinn meðferðis og skírteinið.

Lestarferðalagið á milli Moskvu og Volgograd tekur um 18 klukkustundir og frá Moskvu til Rostov um 16 klukkustundir með núverandi fyrirkomulagi. Flugtíminn frá Moskvu til borganna tveggja er um tvær klukkustundir í báðum tilvikum.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari. mbl.is/Golli

Heppin með borgir 

„Ég held að við séum mjög heppin með borgir. Við í utanríkisþjónustunni erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið leik í Moskvu þar sem við erum þegar með sendiráð á staðnum og allur stuðningur auðveldari en í hinum tveimur borgunum,“ segir hún en tekur fram að bæði Volgograd og Rostov séu mjög áhugaverðar.

Volgograd sé sögufræg borg, fyrst er hún hét Tsaritsyn og síðar sem Stalingrad, þar sem merkir atburðir gerðust í síðari heimsstyrjöldinni. „Svo er Rostov gríðarlega fögur,“ bætir Hafrún við og segir borgina austræna og með mjög sérstæða menningu.

„Þannig að ég held að menn verði ekki sviknir af því, sama á hvaða leik menn komast á, að heimsækja þessar borgir.“

mbl.is/Kristinn Magnúss.

Neyðarvakt í Rússlandi 

Á fundi utanríkisráðuneytisins og KSÍ í dag greindi Þurý björk Björgvinsdóttir, starfsmaður ráðuneytisins, frá mikilvægi þess að hafa vegabréfið í lagi áður en menn fara til Rússlands. Vegabréfið þarf að gilda út janúar 2019, myndin þarf að vera skýr og blaðsíður mega ekki vera snjáðar eða blaðsíður rifnar.

Einnig benti hún á að utanríkisþjónustan verður með neyðarvakt í Rússlandi fyrir íslenska stuðningsmenn allan sólarhringinn á meðan á HM stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert