Tafir á virkjun við Brú

Tungufljót. Inntaksmannvirki væntanlegrar Brúarvirkjunar verða á þessum stað, fyrir landi …
Tungufljót. Inntaksmannvirki væntanlegrar Brúarvirkjunar verða á þessum stað, fyrir landi jarðarinnar Brúar.

Bláskógabyggð hefur ákveðið að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi til HS Orku til byggingar Brúarvirkjunar. Framkvæmdir gátu ekki hafist sl. haust, eins og orkufyrirtækið hafði undirbúið, vegna þess að sveitarstjórn ákvað að laga ágalla á málsmeðferð við útgáfu fyrra framkvæmdaleyfis.

Brúarvirkjun verður tæplega 10 MW vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts. Gert var umhverfismat fyrir virkjunina og hefur verið unnið að undirbúningi í nokkur ár.

Bláskógabyggð tilkynnti um útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Brúarvirkjun í október sl. og undirbjó HS Orka framkvæmdina með útboðum og samningum við verktaka og birgja, meðal annars vélaframleiðanda. Ekki gat þó orðið af framkvæmdum vegna þess að Kayakklúbburinn, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd kærðu málsmeðferð sveitarfélagsins við útgáfu leyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sveitarfélagið ákvað að bæta úr þeim ágöllum sem bent var á í kærunum og gefa út nýtt framkvæmdaleyfi. Var það ákveðið á fundi sveitarstjórnar 1. febrúar sl. en leyfið hefur ekki verið gefið út. Nú hefst nýr kærufrestur þannig að ekki er hægt að hefja framkvæmdir.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að fyrirtækið hafi þurft að leggja í kostnað við vinnslu málsins síðustu vikur en aðalkostnaður þess felist hins vegar í drætti á að virkjunin taki til starfa, sem sagt í töpuðum tekjum. Það tjón geti skipt hundruðum milljóna.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur auglýst starfsleyfi fyrir virkjunina. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert