Vægi N-Atlantshafsins að aukast

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Ljósmynd/NATO

Varnarmálaráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins ræddu aukinn varnarviðbúnað og framlög til varnarmála, eflingu herstjórna NATO og stuðning við umbætur í Írak á tveggja daga fundi sínum sem lauk í Brussel í dag. Þá funduðu ráðherrarnir með varnarmálaráðherrum Finnlands og Svíþjóðar og utanríkismálastjóra ESB um vaxandi samvinnu NATO og ESB.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem sat fundinn, segir að bandalaginu hafi tekist að laga sig að breyttu öryggisumhverfi með auknum varnarviðbúnaði. Vægi Norður-Atlantshafsins sé að aukast sem endurspeglist í því að meiri áhersla verður lögð á eftirlit og viðbragð á þessari lífæð milli Evrópu og Norður-Ameríku. 

Á fundinum var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á herstjórnarkerfi bandalagsins þar sem gert er ráð fyrir stofnun tveggja nýrra undirherstjórna sem munu annars vegar fást við liðs-  og birgðaflutninga og hinsvegar öryggismál á Atlantshafi, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Guðlaugur Þór ásamt Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Guðlaugur Þór ásamt Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Ljósmynd/NATO

Fram kemur, að bandalagsríkin hafi verið að auka framlög til varnarmála jafnt og þétt til að mæta breyttum öryggishorfum og ræddu ráðherrarnir áætlanir um aukin framlög, fjárfestingar og virkari þátttöku í störfum bandalagsins.

Ennfremur segir, að stuðningur bandalagsins við Írak hafi einnig verið til umræðu í ljósi þess að búið sé að frelsa stór landsvæði úr höndum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, einnig þekkt sem Daesh.

Írösk stjórnvöld hafa óskað eftir aðstoð við umbætur í öryggis- og varnarmálum og er verið að undirbúa þjálfunarverkefni á vegum bandalagsins í nánu samstarfi við stjórnvöld og fjölþjóðaliðið sem berst gegn Daesh. Ísland hefur tekið þátt í þjálfun íraskra sérfræðinga í sprengjueyðingu og lagt til fjármagn í átakssjóði sem styðja við slíka þjálfun og er stefnt að því að halda þeim stuðningi áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert