„Algjört kaos“ við Gullfoss

Gullfoss í klakaböndum.
Gullfoss í klakaböndum. mbl.is/RAX

„Þetta er langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Ég held að þetta hafi verið margir dagsskammtar því margir biðu af sér veðrið og drifu sig af stað á sama tíma,“ segir Sigurjón Einarsson sem tók myndband af margra kílómetra langri bílalest um klukkan 15 í gær við Gullfoss. Hann var sjálfur að koma ofan af jökli þegar hann keyrði framhjá bílunum.

Tvö bílaplön eru við Gullfoss, hið efra er við Gullfoss kaffi og hitt er fyrir neðan nær fossinum. Sigurjón byrjaði að taka upp myndbandið þegar hann keyrði fram hjá veitingastaðnum. Bílaröðin nær allan þann veg að afleggjaranum að neðra bílastæðinu og enn lengra eins og sést á myndbandinu. Bílaröðin var stopp.

„Þetta var algjört kaos. Fólk var að mætast á einstefnu vegi því bílum hafði verið lagt öðrumegin á veginum,“ segir Sigurjón.

„Erfiðara og erfiðara að eiga við bílaleigubílana“

Ástdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Gullfoss Kaffi, tekur í sama streng. Hún segir fjöldann og ástandið í gær hafi verið „absúrd“. Óvenjumargir hafi viljað skoða Gullfoss því ekki hafi verið fært daginn þar áður og í gær var brjálað veður og eins hafi vetrarveðrið undanfarið haft áhrif á ferðaplön margra.

Ástdís telur að á bilinu 2.500 til 3.000 manns hafi verið á svæðinu í gær. Sá fjöldi er mikill en hún segist ekki geta fullyrt að það sé met þó fjöldinn hafi verið talsverður. Ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt yfir vetrarmánuðina á síðustu árum. Þegar ófært er einn dag þá eru helmingi fleiri daginn eftir. Alla jafna eru um 20 rútur um hádegið en í gær hafi þær ekki getað lagt á bílaplaninu vegna fjölda bíla.

Bílaleigubílarnir „allavega“ útbúnir

Margir samverkandi þættir valdi því að ástandið geti orðið erfitt á svæðinu líkt og í gær; snjó er illa rutt, óvenju margir ferðamenn eru á svæðinu, bílaleigubílum oft illa lagt og virða ekki reglur, illa búnir bílar og bílaplanið of lítið svo fátt eitt sé nefnt. Ástdís bendir á að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar sinni ekki bílaplönunum við Gullfoss heldur sé það á þeirra könnu að sjá um það. Ekki hafi það bætt ástandið í gær að traktorinn sem er notaður til að ryðja planið hafi bilað.  

„Það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að eiga við bílaleigu bílana vegna þess að þeir leggja hvar sem er og virða engar merkingar. Þegar allar merkingar eru faldar undir snjónum er ennþá erfiðara að eiga við þetta. Fyrir utan það hef ég ekki mannskap til að stýra umferðinni,“ segir Ástdís.  

Spurð hvernig bílaleigubílarnir séu útbúnir segir hún þá vera „allavega“ og margir hverjir kunni ekki að keyra í snjó. „Það er vetur á Íslandi sem hefur verið óvenju harður,“ segir hún. 

Gistu í bílum sem sátu fastir á bílaplaninu

Fyrir nokkrum dögum voru þrír bílaleigubílar fastir á planinu hjá þeim og ferðmenn þurftu að gista í bílnum. Ástdís segir að þau hafi kallað út auka snjómokstursþjónustu til að losa bílana svo fólkið neyddist ekki til að sofa aðra nótt í bílunum. Það hafi verið gert á þeirra kostnað.  

Svipað ástand var við fjölsótta ferðamannastaði víða á Suðurströndinni í gær til dæmis við Skógafoss og í Reynisfjöru, að sögn Sigurjóns. Á síðustu dögum hafa fjölmargir vegir verið ófærir einkum í uppsveitum Árnessýslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert