Gera við jeppa í 55 gráðu frosti

Arnór og Jóhannes er þeir fóru á sama stað á …
Arnór og Jóhannes er þeir fóru á sama stað á suðurpólnum fyrir nokkru síðan. Ljósmynd/Aðsend

Tveir starfsmenn Arctic Trucks eru staddir á hásléttu Suðurskautslandsins í gríðarlegum kulda í eins konar björgunarleiðangri þar sem markmiðið er að gera við jeppa fyrirtækisins sem bilaði þar í síðasta mánuði.

„Þetta er á ytri mörkum þess sem okkur finnst þægilegt að gera. Við trúum því að þetta sé ekki hættulegt en það þarf að fara gríðarlega varlega,“ segir Guðmundur Guðjónsson, verkefnisstjóri suðurpólsverkefna hjá Arctic Trucks.

Annar bílanna sem urðu eftir á suðurpólnum. Myndin er úr …
Annar bílanna sem urðu eftir á suðurpólnum. Myndin er úr safni Arctic Trucks. Ljósmynd/Aðsend

Rússneskt fyrirtæki sem annast flug til og frá Suðurskautslandinu notar jeppa frá Arctic Trucks í tengslum við eldsneytisbirgðastöð fyrir flugvélar sínar. Þegar átti að loka stöðinni um miðjan janúar og keyra heim, eins og þeir gera árlega, bilaði annar jeppinn og ekki náðist að flytja hann til baka. Því var ákveðið að efna til leiðangursins áður en vetur gengur í garð á Suðurskautslandinu af fullum krafti.

Frá leiðangri á suðurpólinn sem var farinn fyrir nokkru síðan.
Frá leiðangri á suðurpólinn sem var farinn fyrir nokkru síðan. Ljósmynd/Aðsend

Allt að 55 gráðu frost

Guðmundur veit ekki til þess að neinn hafi farið inn á hásléttuna áður á þessum árstíma í erindagjörðum sem þessum. Frostið á svæðinu er á bilinu -45 til -55 gráður.

Viðgerðarmennirnir, þeir Jóhannes Guðmundsson og Arnór Ingólfsson, flugu þangað frá Höfðaborg í Suður-Afríku en þangað komu þeir síðastliðinn laugardag.

Eftir að gluggi myndaðist í gær á síðasta deginum sem hægt var að fljúga þangað, lögðu þeir af stað og flugu 1.700 kílómetra inn á 83. breiddargráðu á Suðurskautslandinu, þar sem þeir lentu um fjögurleytið.

Ljósmynd/Aðsend

Þeir byrjuðu að gera við jeppann í gærkvöldi en hingað til hefur viðgerðin ekki gengið nógu vel. Fyrst var talað um að millikassi hefði brotnað í jeppanum en hugsanlegt er að vélin sé einnig biluð í honum.

„Þeir eru að vinna í miklum kulda við krefjandi aðstæður. Það væsir ekkert um þá,“ segir Guðmundur um þá Jóhannes og Arnór, sem hafa komið upp tjöldum og eru með hitara meðferðis. 

Ljósmynd/Aðsend

4 til 5 daga akstur til baka

Ef það tekst að gera við jeppann munu þeir félagar aka bílunum tveimur 1.700 kílómetra til baka og ætti það að taka fjóra til fimm daga á 20 til 25 kílómetra meðalhraða. Ekki er vitað til þess að bílar hafi áður verið keyrðir á hásléttunni á suðurskautinu á þessum tíma.

Guðmundur tekur fram að þeir Jóhannes og Arnór séu margreyndir og öllu vanir. „Við berum fullt traust til þeirra.“ 

Ljósmynd/Aðsend

Hann segir mikilvægt að koma bilaða jeppanum af suðurskautinu. „Það er ekki kjörstaða að hafa bíl þarna yfir veturinn. Þarna verður 70 gráðu frost og jafnvel meira yfir háveturinn. Þessir bílar eru ekkert sérstaklega gerðir fyrir svona mikið frost. Við krossum fingur og vonum að við fáum jákvæðar fréttir í dag.“

Um 30 milljóna kostnaður

Aðspurður segir hann leiðangurinn kosta í kringum 30 milljónir króna og munu Rússarnir taka upp budduna. Bara flugið inn á hásléttu suðurskautsins kostar 160 þúsund dollara, eða um 16 milljónir króna.

Hér fyrir neðan er myndband af leiðangri starfsmanna Arctic Trucks sem fóru á suðurskautið fyrir nokkru síðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert