Íbúar í Grímsey rólegir yfir skjálftahrinunni

Jarðskjálftar á landinu kl. 10:15 í dag.
Jarðskjálftar á landinu kl. 10:15 í dag. Skjáskot/Veðurstofan

„Við erum vön þessu og erum ekki mikið að kippa okkur upp við þetta. Mér var reyndar ekki alveg sama þegar sá stærsti kom í gær,“ segir Guðbjörg Henningsdóttir íbúi í Grímsey. Öflug skjálftahrina hefur verið Grímsey síðustu tvo sólarhringa. Við skjálftana sem voru yfir þrír að stærð heyrðust drunur og högg kom á húsið og ekki mikið af hlutum færðust úr stað.  

Þrír jarðskjálft­ar sem mæld­ust 3,5-3,6 stig urðu við Gríms­ey um klukk­an átta í morg­un og urðu tveir þeirra með aðeins fjög­urra mín­útna milli­bili. Síðustu tvo sól­ar­hring­ana hafa yfir 1.100 skjálft­ar orðið á skjálfta­belt­inu við Gríms­ey og sam­tals hafa tíu þeirra verið yfir 3 af stærð.

Guðbjörg var með afmælisveislu í gær og voru því talsvert margir á heimili hennar þegar stór skjálfti kom. Hún segir alla hafa verið rólega yfir jarðskjálftunum bæði börn og fullorðna. 

Íbúar í Grímsey hugsa greinilega vel um nágranna sína. Guðbjörg segir að haft hafi verið  samband við þá sem búa einir og þeim boðin gisting ef þeir treystu sér ekki til þess að vera einir út af jarðskjálftunum. Þeir hafi afþakkað pent og eru ekki mikið að velta sér upp úr stöðunni.     

Í morgun voru nokkrir skjálftar en Guðbjörg segist hafa sofið þá af sér. Hins vegar vaknaði maðurinn hennar upp við þá áður en hann hélt út á sjó í morgun.  

Grímsey og nágrenni er litrík á jarðskjálftakorti Veðurstofunnar í morgun. …
Grímsey og nágrenni er litrík á jarðskjálftakorti Veðurstofunnar í morgun. Grænu stjörnurnar tákna skjálfta sem eru yfir 3 af stærð. Skjáskot/Veðurstofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert