Læknir borinn þungum sökum

Kona, sem var mikill sjúklingur, datt og slasaðist. Maður hennar …
Kona, sem var mikill sjúklingur, datt og slasaðist. Maður hennar óskaði eftir sjúkrabíl og lækni. Sjúkrabíllinn kom en læknirinn ekki. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Heiðar Friðriksson í Ólafsvík ber heilsugæslulækni alvarlegum sökum í opnum pistli sem hann birti á Facebook 12. febrúar. Hann skrifar að konan sín hafi dottið, rekið höfuðið í vegg og rotast snemma morguns 21. janúar sl. Heiðar hringdi strax í 112 og bað um lækni og sjúkrabíl í hvelli, en konan lá meðvitundarlaus á gólfinu. Hann lýsti aðstæðum og ástandi konunnar fyrir starfsmanni Neyðarlínunnar.

Konan rankaði við sér en var of máttfarin til að standa upp. Heiðar gat komið henni upp í rúm þar sem hún lá þegar sjúkraflutningamenn komu. Þeir hjálpuðu við að klæða hana og var hún sett á sjúkrabörur. Annar sjúkraflutningamaðurinn sagði að heilsugæslulæknirinn ætlaði ekki að koma, þeir ættu að flytja konuna beint suður á bráðamóttöku.

„Ég lét hann segja mér þetta aftur því ég trúði ekki að læknir sem vissi allt um sjúkdóm hennar myndi haga sér svona, hún hefði getað verið höfuðkúpubrotin, handleggsbrotin eða með heilablæðingu. Honum var bara alveg sama um það, hún skyldi ekki fá neina þjónustu hjá honum, hann hafði nefnilega hringt í hana fyrir nokkrum mánuðum og sagt henni að hún fengi aldrei þjónustu hans framar af því að hún hefði klagað hann til klögunarstjórans á Akranesi,“ skrifar hann.

Eiginkona Heiðars, Gunnhildur Linda Vigfúsdóttir, lést 30. janúar, 63 ára gömul, og var hún jörðuð 10. febrúar. Heiðar spyr hver beri ábyrgð á þessu og gefi lækni vald til að neita sjúklingi um lögboðna þjónustu. Hann kveðst ætla að fara með málið eins langt og hann geti.

Komið í hendur landlæknis

„Málið er nú í höndum landlæknis og hann ætlar að taka sér þann tíma sem hann þarf til að skoða þessi mál. Þetta sem þarna er greint frá er viðbót við það sem ég var búinn að klaga þetta fólk fyrir áður,“ sagði Heiðar í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði málið snúa einungis að heilsugæslustöðinni í Ólafsvík en stöðin er hluti af Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE).

Heiðar sagði að tiltekinn læknir á heilsugæslustöðinni hefði hringt til Gunnhildar og tilkynnt að hann myndi aldrei framar veita henni þjónustu. Það gerðist í framhaldi af því að Heiðar sendi framkvæmdastjóra lækninga hjá HVE kvörtun vegna framkomu starfsfólks á heilsugæslustöðinni gagnvart Gunnhildi. Síðasta sumar sendi Gunnhildur skriflega kvörtun til landlæknisembættisins vegna framkomu starfsmanna heilsugæslunnar. Landlæknir tók strax á málunum. Heiðar sagði að hann væri búinn að fá svör frá tveimur læknum en vantaði greinargerð og svör frá heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Hann sagði að sami læknir og sagði Gunnhildi upp þjónustu hefði verið á vakt 21. janúar. Heiðar sagði að Gunnhildur hefði lengi verið mikill sjúklingur. „Þetta er búið að standa yfir í nokkur ár,“ sagði Heiðar. Hann sagðist ekki vilja segja að slysið 21. janúar hefði valdið andláti Gunnhildar níu dögum síðar.

Heiðar kvaðst fyrst og fremst gera athugasemd við að læknirinn hefði ekki komið þegar Gunnhildur datt. Það hefði stórséð á henni og blætt úr höfðinu á henni. Læknarnir hefðu vitað að hún var með lífshættulegan sjúkdóm og þekkt sjúkrasögu hennar.

„Ég ætla að stoppa svona vitleysu og meðferð á sjúklingum ef ég get,“ sagði Heiðar. „Ég get ekki sætt mig við að fólk sé blokkerað svona. Ég fór alltaf með konunni minni til læknis og sagði henni hvað læknarnir sögðu við hana. Þeir kölluðu hana öllum illum nöfnum. Landlæknir er að skoða þetta. Svo bættist þetta við. Kona sem er að berjast fyrir lífi sínu á ekki að fá svona trakteringar.“ Heiðar sendi landlækni beiðni um að atvikið 21. janúar yrði skoðað.

Læknirinn tjáir sig ekki

Jóhanna F. Jóhannesdóttir, forstjóri HVE, sagði að um tvö mál væri að ræða. Það fyrra væri í ferli.

Hún kvaðst fyrst hafa heyrt af málunum þegar færsla Heiðars birtist á Facebook. Það að læknir hefði ekki svarað útkalli yrði skoðað vel.

Almennt talað sagði Jóhanna að læknir heilsugæslunnar gæti ekki sagt sig frá bráðaþjónustu þegar ekki væri annar læknir á svæðinu.

Læknirinn sem um ræðir ætlar ekki að tjá sig um málið við fjölmiðla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert