Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir fjórmenningum sem eru til rannsóknar vegna líkamsárásar og frelsissviptingar. Árásin sem mennirnir eru grunaðir um að eiga aðild að var framin fyrir rúmri viku. Lögreglan handtók upphaflega sex menn í umfangsmiklum aðgerðum sínum á Akureyri. Yfirheyrslur leiddu til þess að tveimur var sleppt úr haldi.

Mönnum var samkvæmt úrskurði héraðsdóms, sem Landsréttur hefur nú staðfest, gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna þar til klukkan 15 á morgun, laugardaginn 17. febrúar. Bergur Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi, segir að fyrst þá verði gefið upp hvort farið verði fram á lengra varðhald yfir mönnunum. 

Tveir þeirra sem eru í haldi kærðu úrskurð héraðsdóms strax á laugardag og hinir tveir á mánudag. 

Rannsókn lögreglunnar heldur áfram og það er mat hennar að ekki sé unnt að greina frá efnisatriðum málsins á þessu stigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert