Stolið frá skátum

mbl.is/Hjörtur

Þrjú þjófnaðarmál voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Brotist var inn í dósasöfnunarkassa skátafélags en ekki er vitað um verðmæti þess magns sem stolið var. Þá var tilkynnt um þjófnað á nær 130 þúsunda króna úlpu úr verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Loks var brotist inn í bílskúr og þaðan stolið hjólsög og tveimur borvélum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurnesjum.

Lögreglan greinir einnig frá því að talsvert hafi verið um að erlendir ferðamenn hafi lent í vandræðum í ófærðinni undanfarið. Þannig hafi lögreglunni í morgun verið tilkynnt um einn slíkan sem hafði fest bíl sinn við hótel í Reykjanesbæ.

Þá var tilkynnt um ferðamenn sem höfðu fest bifreið sína í snjó á Krísuvíkurvegi við Kleifarvatn. Jafnframt barst aðstoðarbeiðni vegna ferðafólks sem lenti í vandræðum á Grindavíkurvegi. Þar hafði það fest bifreið sína utan vegar í snjó en engin slys urðu á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert