Þingið borgar bíla fyrir tólf þingmenn

mbl.is/Kristinn Magnússon

Tólf þingmenn eru með bílaleigubíla sem Alþingi borgar fyrir og þrjátíu þingmenn fyrir landsbyggðarkjördæmin fá greiddan húsnæðis- og dvalarkostnað óháð því hvort þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins og er byggt á svari frá Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra þingsins.

Þeir tólf þingmenn sem Alþingi útvegar bílaleigubíla skiptast í tvo hópa. Annars vegar þá sem halda heimili bæði í Reykjavík og í kjördæmi sínu og nota þá bílana á meðan þeir eru í Reykjavík á þingtíma en fljúga á milli um helgar og hins vegar þá sem aka daglega frá heimili sínu utan höfuðborgarsvæðisins til vinnu sinnar í Reykjavík.

Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna þriggja, Norðvesturkjördæmis, Norðausturkjördæmis og Suðurkjördæmis, fá allir greiðslur vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar óháð því hvort þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi en þær nema 134 þúsund krónum á mánuði. Fyrir daglegan akstur fæst þó aðeins þriðjungur eða 45 þúsund.

Þingmenn sem búa á landsbyggðinni nota upphæðina til þess að greiða fyrir leigu á höfuðborgarsvæðinu en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu nota hana til þess að greiða fyrir aðstöðu eða starfsstöð í kjördæmi sínu samkvæmt fréttinni. Haldi þeir heimili á tveimur stöðum geta þeir að auki fengið 54 þúsund króna mánaðarlegt álag.

Hugsanlega upplýst frekar á mánudaginn

Heildarkostnaður Alþingis vegna flugs innanlands nam 14,9 milljónum á síðasta ári. Ekki hafa verið veittar upplýsingar af hálfu þingsins hvernig greiðslur skiptast á milli þingmanna en hugsanlega verður þar breyting á þegar forsætisnefnd þingsins fundar á mánudag. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hefur boðað gegnsæi í þessum efnum.

Komið hefur fram að hæstu greiðslurnar vegna aksturs hafi farið til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á síðasta ári eða rúmar 4,6 milljónir króna. Ekki er vitað hverjir koma í næstir honum en fram kemur á fréttavefnum Vísir.is að Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sé í 6. sæti með tæpar 2,5 milljón króna.

Ennfremur kemur fram að Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hafi fengið áttundu hæstu greiðslurnar á síðasta ári eða tæpar tvær milljónir og Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er 9. sæti með tæpar 1,4 milljón króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina