Vilja stuðningsfulltrúa áfram í haldi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn á …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundinum sem haldinn var vegna skýrslunnar. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur sem grunaður er um ítrekuð kynferðisbrot gagnvart börnum. Þetta staðfestir Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Ekki fengust upplýsingar um það hjá lögreglu hvað verður farið fram á langt varðhald, en maðurinn verður færður fyrir dómara í dag þar sem sú ákvörðun verður tekin. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 19. janúar síðastliðinn.

Kæra var lögð fram á hendur manninum í ágúst á síðasta ári vegna kynferðisbrota sem hann á að hafa framið framið gegn dreng þegar hann var á aldrinum 8 til 14 ára. Maðurinn var stuðningsfulltrúi drengsins þegar meint brot voru framinn. Málið var hins vegar ekki tekið til skoðunar hjá lögreglu fyrr en í desember, þá eftir ítrekaðar fyrirspurnir réttargæslumanns drengsins. Í janúar var maðurinn svo handtekinn og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald. Samtals hafa nú borist átta kærur á hendur manninum fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum.

Vegna þeirra miklu tafa sem urðu á málinu í meðförum lögreglunnar var hafin rannsókn, und­ir for­ystu Karls Stein­ars Vals­son­ar yf­ir­lög­regluþjóns, innri skoðun á ferli og rann­sókn máls­ins. Var niðurstaðan kynnt á blaðamanna­fundi í vikunni og skýrsl­an jafn­framt birt.

Í skýrsl­unni er verklag lög­regl­unn­ar gagn­rýnt, meðal ann­ars að við frum­grein­ingu hafi ekki verið at­hugað strax með starfs­vett­vang manns­ins í ljósi þeirra ásak­ana sem komi fram í kær­unni. Er aðkoma stjórn­enda sögð hafa verið ómark­viss, verk­skipt­ing óljós og aðhald um fram­vindu máls­ins ekki viðun­andi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert