Vöxtur gagnavera heldur áfram

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stöðugur vöxtur hefur verið á undanförnum árum í eftirspurn gagnavera hér á landi eftir orku að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Þetta kom fram á blaðamannafundi fyrirtækisins í dag þar sem fjallað var um uppgjör vegna ársins 2017.

„Við höfum verið í viðskiptasambandi við tvö öflug fyrirtæki, Verne í langan tíma og svo Advania Datacenter, dótturfyrirtæki Advania. Það er ánægjulegt að vöxturinn er að halda áfram. Þetta er svona starfsemi sem er að talin mjög eftirsóknarverð í næstu nágrannalöndunum. Við sjáum að lönd eins og Norðurlöndin eru að sækja mjög inn á þennan markað.“

Hin Norðurlöndin hafi þannig ekki verið að sækja inn á álmarkaðinn eða kísilmarkaðinn. „En þau sækja þarna mjög stíf, bæði Danir, Finnar, Svíar og nú Norðmenn, sem við erum að keppa við og áhugavert að okkar fyrirtæki, þó svo við höfum kannski ekki fengið stærstu viðskiptavinina þá hefur það fengið marga áhugaverða viðskiptavini.“

Þessi vöxtur væri vissulega tengdur þó nokkuð Blockchain og Bitcoin. „Við fylgjumst bara grannt með þessari þróun og okkar mat að Blockchain-aðferðafræðin sé á margan hátt mjög áhugaverð sem verður gaman að fylgjast með hvernig þróast. En hitt má segja að við erum ekki enn sem komið er ekki tilbúin að fjárfesta í virkjunum fyrir þennan markað.“

Hins vegar væri sú afgangsgeta sem Landsvirkjun hefði nýtt til sölu til slíkra aðila. „Við megum passa okkur að vera kannski ekki of gamaldags þegar aðilar eru að koma með nýja tækni. Þarna eru auðvitað mjög áhugaverðir hlutir að gerast.“

Hörður sagði Landsvirkjun hafa sagt það áður að fyrirtækið hefði áhuga á að auka fjölbreytileikann í viðskiptavinahópnum, meðal annars með gagnaverum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert