Lögreglan ákærði í máli sem hún mátti ekki gera

Ákæran var gefin út af lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Ákæran var gefin út af lögreglunni á Norðurlandi vestra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Landsréttur vísaði í gær frá máli sem lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hafði ranglega ákært í fyrir tveimur árum. Hafði maður verið ákærður fyrir að aka án skráningarmerkja og á ótryggðri bifreið og í kjölfarið haft í hótunum við lögregluna.

Héraðsdómur dæmdi manninn til að greiða 100 þúsund krónur í sekt og 316 þúsund krónur í sakarkostnað, en ríkissaksóknari vildi ekki sætta sig við þá niðurstöðu og áfrýjaði málinu til Landsréttar. Var í áfrýjuninni bent á að lögreglan mætti samkvæmt lögum ekki ákæra í málum sem varða 106. grein almennra hegningarlaga, en þar er kveðið á um hótanir gegn opinberum starfsmönnum, til dæmis gegn lögreglumönnum.

Maðurinn vildi hins vegar að fyrri dómurinn stæði og fór fram á að áfrýjunarkröfu ríkissaksóknara yrði vísað frá Landsrétti. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður mannsins, staðfestir í samtali við mbl.is að skjólstæðingur sinn hafi verið sáttur með sektina og hún hafi verið niðurstaða eftir að hann hefði samið við lögregluna.

Landsréttur úrskurðaði hins vegar í gær að lögreglan hefði ekki mátt ákæra í málinu og vísaði því frá héraðsdómi. Það hefur þá þýðingu að ákæruvaldið, væntanlega héraðssaksóknari í þetta skiptið, mun gefa út ákæru að nýju í máli mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert