Tæplega 1.800 skjálftar síðasta sólarhring

Grænu stjörnurnar sýna skjálfta af stærðinni 3 og yfir. 13 …
Grænu stjörnurnar sýna skjálfta af stærðinni 3 og yfir. 13 skjálftar stærri en 3 hafa mælst frá miðnætti við Grímsey. Kort/Veðurstofan

Skjálftahrinan við Grímsey heldur ótrauð áfram og hafa tæplega 1.800 jarðskjálftar mælst á svæðinu frá því á miðnætti. Til samanburðar má nefna að í hefðbundinni viku mælast á bilinu 300-500 skjálftar á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. 

„Það er engin sérstök breyting greinanleg, þetta er á mjög svipuðu róli og undanfarið,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Það er heilmikið verk að fylgjast með öllum skjálftunum og var Salóme kölluð út sérstaklega til að fylgjast með skjálftahrinunni í dag.

Frétt mbl.is: Enn skelfur við Grímsey

Hrinan er sú mesta í Gríms­ey frá 2013 og er á stóra Tjör­nes­brota­belt­inu og hef­ur jarðskjálfta­hrina um 10-12 km norðaust­an við Gríms­ey staðið nær óslitið frá 14. fe­brú­ar.

13 skjálftar yfir 3 af stærð hafa mælst frá miðnætti, en allir nema einn mældust þó fyrir hádegi. Stærsti skjálftinn síðdegis mældist 2,5 að stærð um 12,1 kílómetra austur af Grímsey. Enn eru engin merki um gosóróa á svæðinu.

Náttúruvársérfræðingar á Veðurstofunni munu halda áfram að fylgjast með gangi mála. „Það er mikið verk að fylgjast með þessu öllu en við gerum það,“ segir Salóme. 

Þessi mynd frá Íslenskum orkurannsóknum sýnir eldstöðvakerfin þar sem plötuskilin …
Þessi mynd frá Íslenskum orkurannsóknum sýnir eldstöðvakerfin þar sem plötuskilin og gosbeltið hliðrast frá Öxarfirði norður að Kolbeinseyjarhrygg. Suðaustast er eldstöðvakerfi Mánáreyja, síðan koma Nafir skammt norðaustan Grímseyjar, þá Hóllinn og loks eldstöðvakerfi Stóragrunns. Kort/Ísor
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert