„Maður er búinn að sofa sáralítið í nótt“

Bjarni Magnússon, fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey, man eftir mörgum skjálftanum …
Bjarni Magnússon, fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey, man eftir mörgum skjálftanum en minnist þess ekki að stórir skjálftar hafi staðið svo lengi yfir áður. Ljósmynd/Helga Mattína Björnsdóttir

„Við héldum í gær að þetta væri að minnka, en svo byrjaði það aftur um kvöldmatarleytið í gærkvöldið og er búið að vera í alla nótt,“ segir Bjarni Magnússon, fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey, í samtali við mbl.is. Hann, líkt og aðrir Grímseyingar, varð vel var við jarðskjálfta upp á 5,2 sem varð í Grímsey rúmlega hálfsex í morgun. „Maður er búinn að sofa sáralítið í nótt,“ bætir hann við.

Bjarni, sem lengi vel sá um jarðskjálftamælingar í Grímsey og er raunar með jarðskjálftamælinn festan á klöpp í kjallaranum hjá sér, segist hafa hrokkið upp annað slagið í alla nótt. „Ég var svo orðinn leiður á þessu um fimmleytið og fór að klæða mig og þá kom eitthvað hlé að mér fannst. Síðan kom þetta helvíti, eins og ég segi, klukkan hálfsex og hann var 5,2.“

Hann segir stóra skjálftann hafa virkað á sig eins og högg. „Mér fannst þetta vera hnykkur og smá hljóð og svo annar hnykkur. Síðan kom annar stór skjálfti um hálfsjö og hann var öðruvísi því þá hristist svolítið hér innanhúss.“

Und­an­farna tvo sól­ar­hringa hafa 1.564 jarðskjálft­ar riðið yfir í nágrenni …
Und­an­farna tvo sól­ar­hringa hafa 1.564 jarðskjálft­ar riðið yfir í nágrenni Gríms­eyjar og af þeim eru 71 yfir þrír að stærð.

Man ekki eftir að stórir skjálftar hafi staðið svo lengi yfir

Und­an­farna tvo sól­ar­hringa hafa 1.564 jarðskjálft­ar riðið yfir á þess­um slóðum, norðaust­ur af Gríms­ey, og af þeim eru 71 yfir þrír að stærð.

Bjarna, sem hefur lengi fylgst með jarðskjálftum í eyjunni, rekur ekki minni til þess að stórir skjálftar hafi staðið svona lengi yfir áður. „Maður hefur oft fundið smá hristing,“ segir hann, „en núna eru þetta orðnir 15-20 skjálftar yfir 3 sem ég er búinn að telja.“

Hann hefur heyrt í öðrum Grímseyingum í morgun og segir þá líka hafa orðið vel vara við skjálftana. „Einn sem fiskaði hvorki meira né minna en 17 tonn í gær á litlum báti og ætlaði sér að sofa vel í nótt, en það fór á annan veg,“ segir Bjarni. „Dótturdóttir mín er hérna hjá mér og hún átti að mæta í vinnu klukkan átta í morgun. Ég fór inn til hennar upp úr hálfátta í morgun og þá sagði hún mér að hún hefði ekkert getað sofið. Hún var að koma úr Reykjavík og ekki vön þessu,“ útskýrir hann og segir hana hafa fundið vel fyrir skjálftunum í húsinu í gær er hún kom heim úr vinnu.

Spurður hvort það sé ótti í fólki kveðst Bjarni ekki vera hissa á að svo sé. „Það er samt enginn ótti í mér, þessi ókyrrð er bara svo leiðinleg.“

„Þá sá ég veggi hreyfast“

Hann kveðst heldur ekki eiga von á neinum stórum skjálfta, en Veðurstofan hefur sagt engan gosóróa vera sjáanlegan á mælum. „Ég held að stóru skjálftarnir komi alltaf til að byrja með og svo verði eftirskjálftar, en það er líka alveg nóg að fá skjálfta upp á 5,2.“

Engar sagnir eru til um að skjálftar hafi valdið skemmdum í Grímsey að sögn Bjarna. Hann man þó vel eftir Kópaskersskjálftanum árið 1976, sem var rúm sex stig og segir hann vera þann öflugasta sem hann muni eftir. „Þá sá ég veggi hreyfast,“ segir hann. „Ég hljóp síðan heim og þá dansaði ljósakrónan og penninn í jarðskjálftamælinum búinn að sletta bleki út á veggina.“

mbl.is