Föst í sjö mánuði í Kvennaathvarfinu

Frá Kvennaathvarfinu.
Frá Kvennaathvarfinu. mbl.is/Ómar

Maaria Pïvinen frá Finnlandi hefur neyðst til að dvelja í Kvennahvarfinu í tæpa sjö mánuði vegna þess að forræðisdeila hennar við íslenskan barnsföður hefur dregist á langinn.

Að því er RÚV greindi frá gerði finnskur lögmaður hennar ráð fyrir að það tæki nokkrar vikur að fá úrskurð í málinu.

„Hún er í áfalli því að í Finnlandi tæki það tvær vikur og sama á við í Svíþjóð og Þýskalandi, tvær vikur,“ sagði Maaria við RÚV.

Hún og barnsfaðir hennar fóru fyrst í sáttameðferð til sýslumanns en málið hefur síðan ítrekað tafist fyrir dómstólum.

Málið hefur kostað hana yfir fjórar milljónir króna.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, sagði við RÚV að málið sé ekki einsdæmi því konur festist oft í athvarfinu vegna seinagangs í kerfinu.

Meðal dvalartími kvenna í athvarfinu var rúmur mánuður á síðasta ári en að sögn Sigþrúðar dvelja margar konur þar í allt að ár.

Uppfært kl. 16.47:

Borist hefur athugasemd frá barnsföður Maaria vegna fréttaflutnings af málinu. Hún er eftirfarandi:

Hann segir það ekki rétt að sáttameðferð hefði farið fram í málinu. Henni hafi verið sleppt hjá sýslumanni, sem sé lögbrot. Hann nefnir að stjórnsýsluákæra hafi verið lögð fram vegna þessa og kvartað hafi verið til umboðsmanns Alþingis.

Hann bætir við að barnið eigi lögheimili hjá honum og að móðirin hafi haldið barni þeirra ólöglega frá heimilinu undanfarna 6 mánuði og 9 daga. Segir hann barnsmóður sína ekki hafa neyðst til að dvelja í Kvennaathvarfinu heldur hafi hún gert það vegna húsnæðisskorts.

Sagt hafi verið að hún hafi farið ólöglega með barnið til Finnlands en hið rétta sé að hún hafi haldið því ólöglega í Finnlandi.

Hann bendir einnig á að hún hafi kallað eftir sambærilegri meðhöndlun í máli hennar og á hinum Norðurlöndunum. Þar hafi aftur á móti fólki sem hafi brotið á umgengnisrétti verið refsað. Nefnir hann mál Hjördísar Svan í því samhengi en hún var dæmd í 18 mánaða fangelsi í Danmörku árið 2014.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert