Íbúar steyptu fyrstu metrana sjálfir

Borgfirðingar við steypuvinnuna í dag.
Borgfirðingar við steypuvinnuna í dag. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Borgfirðingar eru orðnir langþreyttir á óviðunandi ástandi í vegamálum en þeir komu í dag saman í Njarðvíkurskriðum og steyptu u.þ.b. þriggja metra langan vegakafla. Eyþór Stefánsson, annar skipuleggjandi viðburðarins, segir að með gjörningnum vilji heimamenn senda stjórnvöldum skilaboð um að vegurinn sé gjörónýtur.

„Af 70 kílómetra löngum vegkafla til Egilsstaða eru 28 kílómetrar ómalbikaðir; kaflinn frá Eiðum að Laufási, Vatnsskarð og Njarðvíkurskriðurnar þar sem við vorum í dag,“ segir Eyþór en kaflinn um Njarðvíkurskriður er 3,2 kílómetrar að lengd og metur Vegagerðin kostnaðinn af malbikun vegarins um 220 milljónir króna.

Eyþór segir að flestir íbúar á svæðinu hafi mætt og hjálpast að við vegagerðina í dag. „Það var þrusumæting og við hófumst handa við að steypa þennan fyrsta kafla. Við mættum með steypu á tveimur dráttarvélum og skelltum í veginn. Það tóku allir þátt í að leggja og slétta,“ segir Eyþór.

Steinunn Káradóttir og Eyþór Stefánsson fengu heimamenn til að steypa …
Steinunn Káradóttir og Eyþór Stefánsson fengu heimamenn til að steypa saman fyrstu metra vegarins.

„Sveitarstjórn Borgarfjarðar er að fara að leggja þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara til Njarðvíkur í sumar og það væri fullkomin sóun á almannafé ef Vegagerðin ætli ekki að rumpa þessu af samhliða, í stað þess að hafa seinna áhyggjur af ljósleiðaranum og rafmagninu,“ segir Eyþór.

Að sögn Eyþórs er vetrarumferð alltaf að aukast enda þurfa íbúar á Borgarfirði Eystri að sækja alla þjónustu til Egilsstaða, bæði verslun og heilbrigðisþjónustu. „Svo á sumrin springur þetta allt saman,“ segir Eyþór. „Vegamálastjóri hefur sagt að ekki sé hægt að viðhalda vegum sem fer yfir 300 bíla á dag. Meðalumferðin var vel yfir það árið 2017.“

Eyþór segir að nú sé góður tími til að vekja máls á slæmum vegum þar sem verið sé að ræða fjármálaáætlun næstu þriggja ára. „Vegurinn er yfirleitt tekinn út af samgönguáætlun því hún er ekki fjármögnuð. Þremur framkvæmdum hefur verið kippt fram fyrir þessa framkvæmd í samgönguáætlunum: Vaðlaheiðagöngum, Dettifossveginum og göngin undir Húsavíkurhöfða.

„Það er spurning hvort við séum of langt frá Norðurlandi,“ segir Eyþór um það hvort þingmenn landsfjórðungsins ýti á eftir úrbótum vega á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert