„Risavaxnir“ almannahagsmunir

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

„Ég er hjartanlega sammála hæstvirtum þingmanni um að um þetta eigi að ríkja eins mikið gagnsæi og mögulegt er því að hér er um risavaxna almannahagsmuni að ræða,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í svari við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag um söluna á 13% hlut ríkisins í Arion banka.

Logi sagði söluferlið einkennast af ógagnsæi og spurði hvort nýtt Borgunarmál væri í uppsiglingu.

„Erum við enn einu sinni að verða vitni að atburðarás þar sem hagsmunum almennings verður kastað fyrir róða í þágu nokkurra ríkra einstaklinga sem munu maka krókinn?“ spurði Logi og vildi vita hvort eigendur Arion banka væru að leika sér að stjórnvöldum.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín sagði málið snúast í raun og veru um þá ákvörðun stjórnar Kaupskila að óska eftir því að virkja kaupréttarákvæði.

„Þegar ríkið ákvað að setja framlag inn í Arion banka upp á 9,8 milljarða krónur var kaupréttarákvæðið sett inn, en það snýst um að þessi aðili getur kosið að kaupa ríkið út úr Arion banka hvenær sem er, þ.e. kauprétturinn er fortakslaus. Honum má ekki rugla saman við forkaupsrétt, sem hefur líka verið töluvert til umræðu í þessum sal,“ sagði hún og bætti við að Bankasýsla ríkisins fari með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

„Hér þarf að ríkja sem mest gagnsæi. Hluthafasamkomulagið hefur verið birt, stöðugleikaskilyrðin hafa ekki verið birt, ríkisstjórnin hefur óskað eftir því við Seðlabanka Íslands að þau verði birt. Sömuleiðis er búið að ákveða að upplýsingar um þessi mál verði afhentar í trúnaði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á eftir þannig að nefndarmenn munu fá upplýsingar um stöðugleikaframlögin og stöðugleikaskilyrðin,“ sagði Katrín.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur spurði út í söluverðið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, steig einnig í pontu og spurði Katrínu hvort það eigi eftir að semja um söluverðið á eignarhlutnum.

„Það liggur fyrir að gefin eru skilyrði í hluthafasamkomulaginu frá 2009 um það hvernig reikna bæri út verð. Það er hins vegar ekki þar með sagt að þar séu menn algerlega sammála þegar sest er niður og farið yfir mál um hvernig nákvæmlega eigi að miða við þær forsendur. En þær eru gefnar í hluthafasamkomulaginu. Það þarf hins vegar að ná saman um sameiginlegan skilning á þeim forsendum,“ svaraði Katrín.

Í máli Sigmundar Davíð kom einnig fram að ríkisstjórnin væri búin að missa öll tök á atburðarásinni. „Hún hefur vannýtt þau tækifæri sem hún hefur haft til að grípa inn í, m.a. hefur hún vannýtt þann kauprétt sem ríkið hefur haft með þeim afleiðingum, eins og við sjáum núna og fjallað var um í fyrri fyrirspurn, að þessir aðilar, vogunarsjóðirnir, ganga á lagið og vilja virkja ákvæði úr hluthafasamningi frá 2009, frá því í september 2009. Nokkuð sem hefði aldrei komið til nema vegna þess að ríkisstjórnin var búin að hleypa þeim þetta langt,“ sagði hann.

Katrín sagði síður en svo hafa ríkt stefnuleysi í málinu. „Ég nefndi hvernig við höfum í raun gerbreytt regluverki fjármálakerfisins, sett á laggirnar stofnunina Bankasýslu ríkisins til að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sett niður og farið yfir töluverðan hluta af regluverki fjármálakerfisins,“ sagði hún.

„Nú stendur yfir vinna við hvítbók þar sem fara á yfir það sem út af stendur og við getum kallað það sem við viljum gera sérstaklega í löggjöf og regluverki um fjármálakerfið til viðbótar við þær breytingar sem við höfum gert í gegnum evrópska regluverkið sem við erum hluti af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert