Páll vill sama verð í Herjólf óháð höfn

Páll Magnússon vill eina verðskrá á siglingar Herjólfs, helst um …
Páll Magnússon vill eina verðskrá á siglingar Herjólfs, helst um næstu mánaðamót. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rætt var um samgöngur til Vestmannaeyja í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks spurði Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra að því hvort mögulegt væri að flýta áformum um að jafna verðskrá Herjólfs, þannig að verðskráin verði sú sama óháð því hvort siglt er til Þorlákshafnar eða Landeyjahafnar.

Samgönguráðherra sagðist jákvæður fyrir málinu, en greina þyrfti hversu mikið aðgerðin myndi kosta.

Páll sagði að hann þyrfti ekki að fjölyrða um þær hremmingar sem Eyjamenn hefðu upplifað í samgöngumálum síðastliðin ár, vegna tíðrar ófærðar í Landeyjahöfn.

„Þegar ekki er siglt í Landeyjahöfn er ekki nóg með það að siglingatíminn sexfaldist í vetrarbrælunum sem ríkja, heldur þrefaldast fargjaldið líka. Þetta er tvöfaldur ami, sem menn hafa af þessu og þetta er mikið réttlætismál að laga,“ sagði Páll og benti á að ferjusamgöngur til Vestmannaeyja væru hluti af þjóðvegakerfinu.

Hann sagði að það hefði verið talað um það að með nýrri ferju, sem væntanleg er síðar á árinu, yrðu fargjöldin þau sömu, sama hvort siglt væri í Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn.

Far með Herjólfi til Vestmannaeyja fyrir einn fullorðinn einstakling kostar 1.380 kr. ef siglt er frá Landeyjahöfn en 3.420 kr. ef siglt er frá Þorlákshöfn.

„Er eftir nokkru að bíða? Er ekki hægt að laga þetta núna?“ sagði Páll.

Sigurður Ingi tók jákvætt í fyrirspurn Páls um eina verðskrá …
Sigurður Ingi tók jákvætt í fyrirspurn Páls um eina verðskrá Herjólfs. mbl.is/Eggert

Ráðherra jákvæður en lofaði engu

Sigurður Ingi svaraði því til að málið hefði verið til skoðunar í ráðuneytinu, meðal annars vegna ábendinga Páls. Hann væri jákvæður gagnvart málinu.

„Við höfum verið að greina kostnaðinn við það, hann er auðvitað óviss, þar sem það er veðrið sem ræður þar ríkjum og annar óvissuþáttur er það við vitum ekki á þessum tímapunkti hvenær ferjan kemur í haust,“ sagði Sigurður Ingi.

„Ég er mjög jákvæður fyrir því að gera þetta, þetta er réttlætismál,“ sagði samgönguráðherra einnig, en lofaði þó engu, þrátt fyrir Páll kæmi í pontu öðru sinni og óskaði eftir því að ráðherra gæfi „ákveðnari fyrirheit“ um málið.

Sigurður Ingi sagði það oft koma upp í samræðum sínum við Vestmannaeyinga, hversu ósanngjarnt það væri að borga þrefalt gjald fyrir það að sigla til Þorlákshafnar, sem tæki mun lengri tíma að auki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert