Íþróttalög taka ekki til kynjasjónarmiða

Í gildandi íþróttalögum frá 1998 er ekkert fjallað um kynjasjónarmið.
Í gildandi íþróttalögum frá 1998 er ekkert fjallað um kynjasjónarmið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í gildandi íþróttalögum frá 1998 er ekkert fjallað um kynjasjónarmið þó svo að legið hafi fyrir bæði þingsályktun frá 1992 og tillögur sérstakrar nefndar sem skipuð var 1996 til þess að auka hlut kvenna í íþróttum.

Þetta er á meðal þess kom fram á málþinginu „Kynjajafnrétti í íþróttum – hlutverk ríkisvaldsins“ í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Frummælandi var María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur og doktorsnemi við Sussex háskóla, sem kynnti niðurstöður hluta rannsóknar um hlutverk ríkisvaldsins við að tryggja kynjajafnrétti í íþróttum.

Í framhaldi erindis Maríu voru niðurstöðurnar ræddar af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Lárusi Blöndal forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Guðna Bergssyni formanni Knattspyrnusambands Íslands sem voru þátttakendur í pallboði.

Ríkið horfir ekki til kynjasjónarmiða

Þær niðurstöður sem María kynnti í dag lutu aðeins að hluta rannsóknarinnar sem snýr að hlutverki ríkisvaldsins. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að stjórnvöld hafi beina skyldu til þess að tryggja jafnrétti í íþróttum. Þá kemur fram að ríkið horfi almennt ekki til kynjasjónarmiða þegar kemur að lagasetningu og úthlutun fjármuna í tengslum við íþróttir.

„Engan kynbundinn greinarmun á heimildum eða skyldum hvað varðar íþróttir, er að finna í gildandi löggjöf. Ekki er heldur fjallað um jafnréttismál, eða stöðu kynjanna, með sérstökum hætti í löggjöfinni. Þannig er ekki gerður lagalegur greinarmunur á íþróttaiðkun kynjanna, fjármunum sem skuli leggja til íþróttaiðkunar eða annarra sjónarmiða sem eiga rætur í jafnrétti kynjanna í gildandi íþróttalögum.“

Sömu ályktunarefni með 20 ára millibili

Gildandi íþróttalög voru sett árið 1998 og þrátt fyrir að bæði ítarleg gögn og þingsályktun frá Alþingi frá 1992 um að stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að jafnrétti kynjanna yrði aukinn þáttur í lagasetningunni lægju fyrir hafi ekki verið tekið tillit til þeirra. „Þarna er eitthvað í gangi sem lögfræðin getur ekki útskýrt,“ segir María.

Þær tillögur sem eru eins með tuttugu ára millibili.
Þær tillögur sem eru eins með tuttugu ára millibili. Skjáskot/Úr glærum fundarins

María varpaði einnig ljósi á það að sömu ályktunarefni hafi komið fram með tuttugu ára millibili frá nefnd til að auka hlut kvenna og stúlkna í íþróttum, árin 1996 og 2006. „Tuttugu árum síðar er þingið að fela framkvæmdarvaldinu að vinna að sömu málum – aftur getur lögfræðin ekki svarað hvers vegna það er.“

Ekki jafnréttissjónarmið í fjárlögum

Ekki er fjallað um samþættingu jafnréttissjónarmiða í gildandi fjárlögum þegar kemur að íþróttum. Fram kom í máli Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að það kunni að vera sökum þess að ekki hafi gefist nægilegur tími í vinnslu fjárlaga sökum aðstæðna. „Við tökum þetta algjörlega til okkar í ráðuneytinu,“ segir Lilja.  

Þá segist Lilja ánægð með það að bæði UMFÍ og ÍSÍ hafa komið strax með í það að stofna starfshóp í kjölfar #metoo-byltingarinnar. Einnig segist hún mjög þakklát þeim konum sem stigu fram og stóður fyrir þessari vitundarvakningu og sýndu þannig gríðarlegt hugrekki. 

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var í pallborði á málþinginu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var í pallborði á málþinginu. mbl.is/Rax
mbl.is